Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir telur óráðlegt að rýmka reglur um hámarksfjölda á samkomum á næstunni. Í dag er 500 manns leyfilegt að koma saman og telur sóttvarnalæknir líklegt að hann muni mæla með óbreyttum fjölda út ágúst. Hins vegar segir hann til skoðunar að rýmka opnunartíma vínveitingastaða um næstu mánaðamót: Þeim er nú heimilt að hafa opið til klukkan 23.
Ekkert innanlandssmit hefur greinst hér á landi í heila viku. Frá 15. júní, er landamæraskimun hófst, hafa tæplega 25 þúsund farþegar verið skimaðir. Tólf hafa greinst með virkt smit og beðið er eftir mótefnamælingu hjá tveimur. Tæplega fimmtíu hafa greinst með gamalt smit og því ekki taldir smitandi.
Ellefu innanlandssmit hafa greinst frá 15. júní og öll tengjast þau ferðamönnum sem hingað hafa komið með veiruna. Á upplýsingafundi almannavarna í dag sagði sóttvarnalæknir að ennþá væri því mjög lítið smit til staðar í samfélaginu. Tekist hefði að uppræta smit sem komu upp í tengslu við komu ferðamannanna.
Þórólfur sagði að áfram verði lögð áhersla á skimun við landamærin. „Við munum halda áfram á sömu braut.“
Hann fór svo yfir gagnrýni sem komið hefur frá læknum, m.a. á Landspítalanum, á landamæraskimunina. Sagði hann málefnalega gagnrýni af hinu góða og að hún væri hjálpleg.
Gagnrýnin hefur að sögn Þórólfs verið margvísleg og ekki einsleit. Því sé erfitt að átta sig á hvort um eina rödd sé að ræða eða fleiri. Sagði hann megingagnrýnina vera þá að niðurstöður skimunarinnar gæfu tilefni til að hætta henni. Því væri hann ekki sammála.„Ef við hefðum ekki gert þetta þá hefðum við ekki vitað neitt. Ekki vitað hvort það væru margir eða fáir [smitaðir] eða hvernig staðan væri og þá hefðum við haldið áfram að þrasa og rífast um það án þess að hafa nokkra vitneskju í handraðanum. Ég held að þetta sé ómetanlegt.“
Dæmin sýni að illa hefði getað farið ef ekki hefði verið skimað. Við skimunina hafi fengist þekking sem yrði notuð til að taka ákvarðanir um breyttar áherslur í framtíðinni. „Við viljum halda áfram skimun út júlí og sjá hvort og hvaða ferðamenn eru að bera með sér veiruna.“ Til greina komi svo að hætta að skima fólk sem er að koma frá ákveðnum löndum.
Fjarri öllu lagi
Þórólfur sagði að einhverjir hafi sagt að kostnaður sem falli á Landspítalann vegna skimananna hlaupi á milljörðum. „Þetta er tala sem er fjarri öllu lagi.“ Hann sagði kostnað spítalans fyrst og fremst felast í uppfærslu tækjabúnaðar sem hafi verið tímabær fyrir löngu.
Þeirri gagnrýni að það væri ekki hlutverk spítalans að taka þátt í skimunum á einkennalausum einstaklingum vísaði Þórólfur í reglur um að rannsóknarstofur spítalans hafi hlutverki að gegna fyrir landið allt. Einnig beri að stunda skimun fyrir smitsjúkdómum sem hafi þýðingu fyrir almannaheill. „Alrangt“ væri að halda því fram að það sé ekki hlutverk Landspítalans að taka þátt í þessum aðgerðum. „Ýmislegt í gagnrýni lækna á Landspítala er réttmætt en annað er beinlínis rangt.“
Einnig minnti sóttvarnalæknir á að frá og með 13. júlí verða Íslendingar og aðrir búsettir hér að fara í skimun við komuna eins og nú er en svo í það sem kallað er „heimkomusmitgát“ – sem er ákveðin útfærsla á sóttkví – í 4-6 daga. Að þeim tíma loknum verður fólki boðið í aðra sýnatöku og ef niðurstaðan er neikvæð „eru einstaklingar frjálsir ferða sinna,“ sagði Þórólfur. Þetta er að hans sögn gert til að tryggja að einstaklingar sem fá neikvæða niðurstöðu úr skimun séu ekki raunverulega smitaðir og geti smitað aðra eins og þegar hefur gerst.
Hins vegar sé ekki talin þörf á því að beita tvöfaldri skimun á hinn almenna ferðamenn, ekki frekar en var gert í mars og apríl. „Í mínum huga verður skimun á landamærum ennþá mikilvæg í hlutverki okkar að reyna að lágmarka áhættuna á frekari faraldri COVID-19. [...] Við erum að beita öllum ráðum í bókinni til að lágmarka það að smit breiðist út hér innanlands.“