Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóri Hveragerðis, segir bæinn þurfa að fá fleiri ferðamenn til að milda það efnahagsáfall sem sveitarfélögin hafa orðið fyrir. Enn fremur telur hún Hveragerði geta tekið á móti fleiri ferðamönnum með öruggum hætti og veltir því upp hvort hægt sé að breyta fyrirkomulagi skimana á Keflavíkurflugvelli.
Aldís var gestur í Vikulokunum á Rás 1 fyrr í dag, ásamt Ara Skúlasyni hagfræðingi hjá Landsbankanum og Skapta Erni Ólafssyni upplýsingafulltrúa Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF).
Skapti segir ferðaþjónustuna kalla eftir því að áformum um breytingar á skimunum fyrir komufarþega í Leifsstöð verði flýtt.
Samkvæmt honum hafa Íslendingar ekki gefið neinn afslátt þegar kemur að sóttvörnum í COVID- faraldrinum, en mikilvægt væri að huga að efnahagsmálum líka. Verði komur ferðamanna takmarkaðar enn frekar til landsins færum við í enn dýpri efnahagslægð, sem gæti líka haft heilsufarsleg vandamál, að mati Skapta.
Aldís tekur í sama streng og Skapti og segir Hveragerði hafi orðið af miklum tekjum vegna færri ferðamanna. „Við þurfum að fá fleiri ferðamenn. Efnahagur okkar hefur byggt á þessu og við teljum að við getum tekið á móti þeim með öruggum hætti. Smitin eru ekki í stórum mæli greinilega, þannig að það er spurning hvort við getum ekki spítt aðeins í,“ segir Aldís.
Hún bætir þó við að íslenskum ferðamönnum um bæjarfélagið hafi fjölgað á undanförnum vikum, sem sjá mætti með aukinni umferð um helgar. Hins vegar dugi það ekki til að veita fólki í rekstri í ferðaþjónustunni viðeigandi stuðning, þar sem 350 þúsund manna þjóð geti ekki bætt upp tap þegar tvær milljónir ferðamanna vantar.