Benedikt Jóhannesson, fyrrum formaður Viðreisnar, segir það vera útilokað að þjóðin fái sanngjarnan hlut af sameigninni nema rofin verði tengslin milli útgerðarinnar og stjórnmálaflokkanna – tengsl sem hafi orðið til þess að lækka veiðigjöld og auka hagnað útgerðaraðalsins.
Þetta skrifar hann í stöðuuppfærslu á Facebook í dag. Hann spyr enn fremur hve lengi Íslendingar eigi að láta bjóða sér óbreytt ástand.
Í grein á vefsvæði Benedikts segir hann að núverandi ríkisstjórn „gæti vel staðið undir nafninu Sérhagsmunastjórnin“. Veiðigjald hafi verið lækkað og öllum almenningi sé misboðið. Það verði aldrei sátt um kerfi sem ívilni útgerðarmönnum og þegar gjald sé ákveðið af pólitíkusum og embættismönnum.
Hagnaðurinn af „sameigninni“ lendir allur í vasa útgerðarmanna og afkomenda þeirra
Benedikt segir að útgerðin hafi aftur á móti á undanförnum árum forherst í því að gefa ekki krónu eftir af sínum ofurgróða og að almenningur sé ekki sáttur við einkaeign á sameign þjóðarinnar. Á móti sé ekki óeðlilegt að spurt sé: Hver hlúir að sameign og gætir þess að vel sé um hana gengið?
Kvótakerfið með reglum um nýtingarrétt til langs tíma stuðli að því að útgerðin fari ekki ránshendi um auðlindina til þess að ná í skammtímahagnað. Kerfið hafi orðið grundvöllur mikillar hagræðingar sem að mestu hafi hafnað í vasa útgerðarmanna.
Það er útilokað að þjóðin fái sanngjarnan hlut af sameigninni nema rofin verði tengslin milli útgerðarinnar og...
Posted by Benedikt Jóhannesson on Wednesday, July 15, 2020
„Fyrir daga kvótakerfisins var útgerðin rekin á núlli með síendurteknum gengisfellingum, en nú er öldin önnur. Fólk, sem áður rak útgerð sem barðist í bökkum, varð skyndilega auðkýfingar á montjeppum með villur úti í erlendum paradísum. Útgerðarmenn eru smám saman að leggja undir sig allt atvinnulíf þjóðarinnar. Hagnaðurinn af „sameigninni“ lendir allur í vasa og afkomenda þeirra. Núverandi stjórnarflokkar vilja festa það kerfi nýrra lénsherra um alla framtíð,“ skrifar hann.
„Kyrrstöðuflokkarnir“ vilja að veiðigjaldið sé ákveðið af stjórnmálamönnum
Benedikt gagnrýnir ríkisstjórnarflokkana en hann segir að stjórnmálamenn „kyrrstöðuflokkanna í ríkisstjórninni“ vilji veiðigjald sem sé ákveðið af stjórnmálamönnum en taki ekki mið af markaði. Þeir sem mikið skulda fái afslátt. Flestum þætti það einkennileg viðskiptaaðferð við bensíndæluna.
Ýmsir þingmenn sem á hátíðarstundum kenni sig við frjálsa samkeppni vilji alls ekki hleypa markaðsöflunum að til þess að ákveða veiðigjaldið sem þó sé almenn regla á Íslandi, til dæmis á húsaleigumarkaði. Ekkert kerfi sem byggir á undanþágum og sérreglum nái að uppfylla kröfur um sanngirni. Sanngjarnt gjald fyrir veiðiheimildir sé nákvæmlega eins skilgreint og á hlutabréfamarkaði: „Það sem markaðurinn ber“. Það sé fullt gjald.