Kvika hefur undirritað viljayfirlýsingu um kaup á 80 prósent hlut í Netgíró en fyrir á bankinn um 20 prósent hlut í félaginu og verður því eini eigandi þess ef kaupin ná fram að ganga. Þetta kemur fram í tilkynningu bankans til Kauphallarinnar.
Viljayfirlýsingin er gerð með ýmsum fyrirvörum, svo sem um samþykki stjórnar Kviku, niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og samþykki eftirlitsaðila. Áætlað er að ganga frá kaupsamningi innan þriggja mánaða, að því er fram kemur í tilkynningunni.
„Kaupin hafa ekki áhrif á afkomuspá bankans fyrir árið í ár en stefnt er að því að kaupin hafi jákvæð áhrif á afkomu bankans til lengri tíma.“
Í tilkynningunni segir jafnframt að kaup á Netgíró séu í samræmi við stefnu bankans að nýta tæknilausnir til þess að nútímavæða fjármálaþjónustu. Netgíró hafi lagt áherslu á að þróa lánshæfismöt ásamt því að bjóða raðgreiðslur með einföldum hætti. Áður hafi bankinn sett fjártækniþjónustuna Auði á laggirnar með góðum árangri.
Kvika hafi átt farsælt samstarf við Netgíró á undanförnum árum, meðal annars varðandi fjármögnun á kröfusafni félagsins. Kaupin geri bankanum kleift að efla enn frekar samstarfið við Netgíró sem leiði til aukinnar skilvirkni og hagræðingar hjá báðum aðilum. Netgíró er nú á tæplega 3.000 sölustöðum á landinu og yfir 68.000 einstaklingar eru í viðskiptum við fyrirtækið.
Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku, segir í tilkynningunni að þau sjái tækifæri í Netgíró til framtíðar enda sé félagið með háa markaðshlutdeild og hjá því starfi öflugir og reynslumiklir starfsmenn. „Væntanleg kaup bankans á Netgíró falla vel að stefnu bankans um þróun fjármálaþjónstu byggða á hagkvæmum tæknilausnum. Með sterka innviði og fjárhagslegan styrk bankans á bakvið sig teljum við félagið vera í góðri stöðu til að sækja fram á næstu misserum.“
Skorri Rafn Rafnsson, stjórnarformaður Alva Holding ehf., móðurfyrirtækis Netgíró, segir að viljayfirlýsingin sé mikið gleðiefni og um leið staðfesting á því „sem við hjá Netgíró höfum unnið að frá stofnun félagsins. Afburða starfsfólk, skýr framtíðarsýn og mikil vinna hefur skapað fyrirtækinu þann sess sem það nú skipar. Við vitum að framundan eru spennandi tímar og mikil tækifæri til vaxtar.“