„Við erum að leita allra leiða til þess að koma í veg fyrir þetta. Þetta er ótrúleg ósvífni af hendi Icelandair. Vanvirðing gagnvart starfsfólki og vanvirðing gagnvart þeim reglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði og þeirra sem ganga til samninga.“
Þetta segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, í samtali við Kjarnann þegar hún er innt eftir viðbrögðum við því að stjórnendur Icelandair hafi ákveðið að hætta viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands og leita eftir samningum við annan samningsaðila á hinum íslenska vinnumarkaði um framtíðarkjör öryggis- og þjónustuliða hjá félaginu. Öllum flugfreyjum og flugþjónum verður sagt upp og þess í stað eiga flugmenn að taka að sér störf öryggisliða um borð tímabundið.
Drífa segir að sér sýnist stjórnendur Icelandair ætli að þrýsta niður launum einhliða. „Þeir þurfa að svara því við hverja þeir ætla þá að semja því að það eru sannarlega ekki flugfreyjur.“
Hún deildi frétt um málið á Facebook í dag og sagði með færslunni: „Ótrúleg ósvífni. Þetta verður ekki liðið!“
Ótrúleg ósvífni. Þetta verður ekki liðið!
Posted by Drífa Snædal on Friday, July 17, 2020
Forstjórinn segir ljóst að samtalið fari ekki lengra
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í tilkynningu frá fyrirtækinu að það hefði lagt allt kapp á að ná samningum við Flugfreyjufélag Íslands og „lagt í þeim tilgangi fram fjölmörg tilboð sem öllum hefur verið hafnað. Með þeim kjarasamningi sem felldur var af meðlimum FFÍ gengum við eins langt og mögulegt var til að koma til móts við samninganefnd FFÍ. Sá samningur hefði tryggt ein bestu kjör fyrir störf flugfreyja og flugþjóna sem þekkjast á alþjóðamarkaði.
Tíminn er á þrotum og við neyðumst til að leita annarra leiða. Þessi ákvörðun er mér afar þungbær en nauðsynleg þar sem ljóst er að samtalið milli félaganna tveggja fer ekki lengra. Það hvílir mikil ábyrgð á okkur sem stjórnum félaginu að tryggja rekstur þess til framtíðar og því miður sjáum við ekki annan kost í stöðunni en að fara þessa leið. Það er sárt að vera í þessari stöðu gagnvart afburðasamstarfsfólki sem hefur staðið vaktina með félaginu til fjölda ára, svo eftir hefur verið tekið,“ sagði hann.