Áfangastaðir innanlands grænka

Náttúruperlur Íslands fá ekki frí í sumar þótt erlendum ferðamönnum hafi snarfækkað. Helstu ferðamannastaðir innan friðlýstra svæða eru þó mun betur í stakk búnir til að taka við ágangi en áður vegna uppbyggingar undanfarinna ára.

Foss ofan við Skógafoss þar sem gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls hefst. Á síðasta ári þurfti að loka hluta af Skógaheiði ofan við Skógafoss vegna ágangs um svæðið.
Foss ofan við Skógafoss þar sem gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls hefst. Á síðasta ári þurfti að loka hluta af Skógaheiði ofan við Skógafoss vegna ágangs um svæðið.
Auglýsing

Árið 2016 voru sex ferðamannastaðir innan friðlýstra svæða á rauðum lista Umhverfisstofnunar, sem þýðir að þeir voru í verulegri hættu hvað varðar verndargildi vegna ágangs, en á árinu 2019 voru aðeins tveir staðir á rauða listanum. Aðrir höfðu náð að komast af listanum vegna þess að áhersla var lögð á uppbyggingu þeirra og verndun. Þá hefur fjölgað á sérstökum grænum lista en sá listi geymir þá ferðamannastaði sem standast vel álag og hafa sumir verið byggðir sérstaklega upp til að taka við miklum fjölda gesta.


Íslendingar ferðast meira um landið nú en fyrri ár, enda færri á leið til útlanda en vanalega. Undanfarin ár hefur mikið verið fjallað um ágang á ferðamannastöðum og áhyggjur verið viðraðar af því að dýrmætar perlur náttúrunnar verði fótum troðnar vegna mannmergðar. En einmitt vegna mikillar ásóknar ferðamanna hefur verið ráðist í uppbyggingu innviða á mörgum af helstu ferðamannastöðum innan friðlýstra svæða. Umhverfisstofnun hvetur landsmenn raunar alveg sérstaklega til þess að ferðast um friðlýst svæði. 

Auglýsing


Skógafoss ekki lengur í hættu


Ástand friðlýstra svæða, sem geyma helstu náttúruperlur landsins og fjölsótta sem fáfarna ferðamannastaði, er metið reglulega af Umhverfisstofnun. Sé áfangastaður eða svæði talið í sérstakri hættu er það sett á rauðan lista svo hægt sé að „forgangsraða kröftum og fjármunum til verndunar,” eins og segir í nýjustu skýrslu stofnunarinnar um ástandsmat ferðamannastaða innan friðlýstra svæða. Rauði listinn er nú gefinn út árlega, en var áður gefinn út annað hvert ár. Appelsínugulur listi er næsta stig fyrir ofan, þá er aðeins hluti svæðis talinn í hættu. 

Á árunum 2012-2016 rötuðu vinsælar perlur eins og Skógafoss, Friðland að Fjallabaki og Geysir á áðurnefndan rauðan lista og voru þannig talin „svæði í hættu.” Þessi svæði hafa þó öll náð að komast af rauða listanum samhliða aukinni uppbyggingu innviða. 

Alls eru 106 áfangastaðir ferðamanna innan friðlýstra svæða metnir í ástandsskýrslunni. Af þeim eru tveir staðir sem rata á rauða listann miðað við stöðu mála 2019 og eru þannig metnir sem áfangastaðir í hættu: Dettifoss (að austanverðu) og Rauðufossar innan Friðlands að Fjallabaki. 

Friðlýst svæði eða áfangastaðir innan þeirra sem talið er að geti tapað verndargildi sínu verði ekki gripið til aðgerða fara á appelsínugulan lista. Gönguleiðin vinsæla Laugavegurinn var til að mynda á appelsínugulum lista árið 2018 og einnig Skógaheiði við Skógafoss, sem er upphaf gönguleiðarinnar um Fimmvörðuháls, en báðar leiðirnar eru komnar af þeim lista í nýjustu skýrslunni sem miðar við stöðu mála 2019. 


Fleiri rata á grænan lista


Tekinn var upp sérstakur grænn listi fyrir ferðamannastaði innan friðlýstra svæða árið 2018 og hefur fjölgað á honum milli ára. Á árinu 2018 rötuðu 23 staðir á listann en þeim fjölgar í 34 á árinu 2019. Grænir áfangastaðir teljast þeir sem taldir eru standast vel það álag sem er á þeim. Bæði er þar að finna staði sem hafa sérstaklega verið byggðir upp til að geta tekið á móti miklum fjölda gesta, eins og til að mynda Dynjandi og áfangastaðir innan Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls en einnig fáfarnari slóðir svo sem Veiðileysufjörð á Hornströndum. 


Meðal nýrra staða á græna listanum árið 2019 eru Öndverðarnes innan Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls, Þríhnúkagígar, Hraunfossar og Arnarstapi. Aðrir staðir sem ná á græna listann bæði 2018 og einnig 2019 eru Dynjandi, Dimmuborgir, Grábrók, Búðahraun og Húsafell svo eitthvað sé nefnt. 


Ferðamenn eigi stefnumót við náttúruna


Forstjóri Umhverfisstofnunar hvetur þá sem eru á ferð um landið til að heimsækja friðlýst svæði. „Það var full þörf á því að byggja upp innviðina og við erum klárlega að njóta þess núna að gert hefur verið átak í þessum efnum undanfarin ár,” segir Sigrún Ágústsdóttir forstjóri stofnunarinnar. 


Hún bendir á að stofnunin hafi ekki þurft að loka neinu svæði í ár á grundvelli laga um náttúruvernd eins og gerst hafi síðustu ár. Í fyrra þurfti til að mynda að loka Fjaðrárgljúfri tímabundið og einnig Skógaheiði ofan við Skógafoss. Engar lokanir nú segir hún að séu ekki aðeins vegna færri ferðamanna heldur vegna þess að ferðamannastaðirnir séu einfaldlega betur í stakk búnir til að taka við fólki en áður vegna sterkari innviða. 


„Almennt þá er aðstaðan til að taka við mikilli umferð fólks um friðlýst svæði orðin miklu betri. Það er líka skemmtilegt að sjá hvað ferðaþjónustan víða um land hefur gert mikið, þetta spilar mjög vel saman. Nú er hægt að njóta þess að skoða náttúruperlu og fara svo líka á einhvern góðan veitingastað í nágrenninu til dæmis, það er víða svo margt í boði. Ég held að Íslendingar séu að fá mjög gott frí á Íslandi í sumar, í boði náttúrunnar.” 


Stefnumót við náttúruna er nafn á fræðslu- og kynningarátaki sem Umhverfistofnun hefur blásið til í því skyni að hvetja fólk til að sækja náttúruperlur innan friðlýstra svæða heim. „Við viljum með því benda Íslendingum sérstaklega á þessa staði sem við höfum verið að vinna hörðum höndum á til að byggja upp innviðina,” segir Sigrún. Umræddir innviðir vísa bæði til uppbyggingar á borð við betri göngustíga og bættra merkinga en einnig aukinnar landvörslu og fræðslu. 


Víða er nú hægt að fara í gönguferðir undir leiðsögn landvarða á friðlýstum svæðum og hafa þær að sögn Sigrúnar hafa hlotið góðar viðtökur. Hægt er að fá upplýsingar um fræðslugöngurnar undir aðganginum Náttúruverndarsvæði á Facebook og einnig heldur Umhverfisstofnun úti Instagram-reikningi undir sama nafni í því skyni að upplýsa almenning betur um friðlýst svæði á borð við Friðland að Fjallabaki, Þjóðgarðinn Snæfellsjökul og fleiri og fleiri, og þau undur sem þessi stórbrotnu svæði hafa upp á að bjóða. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiInnlent