Viðræður milli Sjómannafélags Íslands og stjórnar Herjólfs ohf. halda áfram í dag vegna verkfalls sjómanna Herjólfs. Að öðru óbreyttu hefst vinnustöðvun áhafnar Herjólfs á miðnætti og stendur í þrjá sólarhringa.
„Þetta þarf að klárast við samningaborðið og það er verkefni dagsins,“ segir Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs Ohf., í samtali við Kjarnann. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um hvar hafi strandaði í viðræðum milli deiluaðila. „Nú eru menn bara að tala saman og við skulum sjá hvað kemur út úr því.“
Gamli Herjólfur siglir í verkfalli
Ef til vinnustöðvunar kemur mun Herjólfur III sigla á milli lands og eyja og hann mannaður sjómönnum sem ekki eru í Sjómannafélagi Íslands. Rætt hefur verið um verkfallsbrot í samhengi við þessa ráðstöfun stjórnar Herjólfs ohf. Guðbjartur telur ekki að um verkfallsbrot sé að ræða þegar sjómenn úr öðru stéttarfélagi sáu um ferðir Gamla Herjólfs milli lands og eyja.
„Það er alveg viðurkennt í félagsdómi að félagsmenn í Sjómannafélagi Íslands hafa fengið þennan rétt til að boða til verkfalls. Að sama skapi þýðir það að aðrir og önnur stéttarfélög sem hafa aðkomu að undirmönnun á skipinu eru ekki í verkfalli. Af því leiðir að þeir eru með vinnuskyldu og við getum þá siglt á þeim. Þannig að við erum í sjálfu sér ekki að brjóta nein lög og þetta er þá aðrir í áhöfn en þeir sem eru í Sjómannafélagi Íslands. Það er ekkert verið að nota starfsmenn úr því félagi enda eru þeir í verkfalli,“ segir Guðbjartur.
„Þetta er klárt verkfallsbrot“
Bergur Þorkelsson, formaður Sjómannafélagsins, segir í samtali við Kjarnann að um klárt verkfallsbrot sé að ræða og að Sjómannafélagið hyggist kæra það til félagsdóms.
Þegar Bergur er spurður um það hvort hann sé bjartsýnn fyrir því að viðræður dagsins skili árangri segist hann vera bjartsýnn að eðlisfari. Ekki sé hægt að leggja mat á það hvort að viðræður dagsins skili árangri enda fundahöld skammt á veg komin.
Horfa til lífskjarasamningsins
Aðspurður um hvort Sjómannafélagið hafi eitthvað slegið af sínum kröfum segir Bergur: „Við tökum annan vinkil á þetta. Þeir hafa vísað í sínum skrifum svo mikið í lífskjarasamninginn svo við tókum bara vinkil þangað. Eitt af atriðum lífskjarasamningsins er vinnutímastytting. Við sjáum hvernig við getum útfært það.“
Í því samhengi segir hann starfsfólk Herjólfs vinna mikið eins og staðan er í dag. „Þetta fólk vinnur núna 190 tíma í mánuði og 67 prósent af því er í yfirvinnu. Þannig að við skulum sjá hvort að við finnum ekki farsæla lausn á þessu.“