Mikill munur er á mældu atvinnuleysi á Íslandi eins og það birtist í tölum frá Vinnumálastofnun annars vegar og í tölum frá Hagstofunnar hins vegar. Almennt atvinnuleysi í júnímánuði mældist 7,5 prósent hjá Vinnumálastofnun og ef tillit er tekið til hlutabótaleiðar stjórnvalda var atvinnuleysi 9,5 prósent. Þessar tölur koma úr mánaðarskýrslu Vinnumálastofnunar sem birt var fyrr í mánuðinum. Samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar fyrir júní sem birtar voru í gær mældist atvinnuleysi í mánuðinum hins vegar 3,5 prósent.
Reglulega spretta upp umræður um mun á atvinnuleysistölum stofnananna en ástæðuna má rekja til þess að mælingarnar eru framkvæmdar á ólíkan hátt. Kjarninn hafði samband við starfsfólk Hagstofunnar til að reyna að komast að því í hverju munurinn liggur.
Rannsóknin framkvæmd í hverri viku frá 2003
Í svari frá Hagstofunni segir að vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar sé hluti af vinnumarkaðsrannsókn Evrópusambandsins og að hún fylgi alþjóðlegum skilgreiningum slíkra rannsókna. „Rannsóknin er framkvæmd á sambærilegan hátt í öllum löndum evrópska efnahagssvæðisins og eru spurningar sambærilegar milli landanna. Þetta er gert til að fá gögn sem hægt er að nota í samanburði milli landa. Hagstofa Íslands hefur framkvæmt Vinnumarkaðsrannsókn samfellt allar vikur ársins frá árinu 2003.“
Samkvæmt skilgreiningunni sem Hagstofan notar þá teljast þeir atvinnulausir sem voru án atvinnu í viðmiðunarviku rannsóknarinnar. Atvinnulausir teljast þeir sem „höfðu hvorki atvinnu né voru í vinnu (í eina klukkustund eða lengur) sem launþegi eða sjálfstætt starfandi, eru að leita að vinnu og geta hafið störf innan tveggja vikna eða hafa fengið starf sem hefst innan 3 mánaða.“
Varðandi síðasta hluta skilgreiningarinnar þá teljast þeir einstaklingar sem komnir eru með vinnu sem hefst innan þriggja mánaða atvinnulausir. Þeir einstaklingar sem hafa fengið vilyrði um vinnu sem hefst eftir lengri tíma en þrjá mánuði eru taldir óvirkir og því utan vinnuafls. Það sama gildir um þá sem ekki geta hafið störf innan tveggja vikna, þeir einstaklingar teljast óvirkir. Samkvæmt skilgreiningu Vinnumálastofnunar getur fólk verið atvinnulaust að hluta en ekki samkvæmt skilgreiningu Hagstofunnar.
Þá er líka munur á fjölda þeirra sem eru til skoðunar hjá hvorri stofnun fyrir sig. Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar miðar við áætlaðan meðalfjölda einstaklinga á aldrinum 16 til 74 ára fyrir hvern mánuð. Áætluð mannaflstala Vinnumálastofnunar miðar við fólk á aldrinum 18 til 69 ára.
Miklir fyrirvarar með nýjustu niðurstöðum
Í frétt á vef Hagstofunnar frá því í gær eru settir fram ákveðnir fyrirvarar vegna niðurstaðna vinnumarkaðsrannsóknar. Þar segir að árstíðarleiðréttar tölur geti verið ónákvæmar við óvenjulegar aðstæður líkt og nú eru á vinnumarkaði. Árstíðarleiðréttar tölur gera ráð fyrir hefðbundnum sveiflum á vinnumarkaði, til dæmis auknum fjölda atvinnulausra þegar námsfólk hefja leit að sumarvinnu. Og eins og segir á vef Hagstofunnar: „Slíkar leiðréttingar duga skammt þegar óvæntir og einstakir atburðir hafa áhrif á atvinnustöðu fólks.“
Þá er einnig gerður fyrirvari vegna mögulegrar brottfallsskekkju. „Vísbendingar eru um brottfallsskekkju í niðurstöðunum sem lýsa sér í því að einstaklingar sem fengu greiddar atvinnuleysisbætur í júní voru ólíklegri til að svara spurningalista rannsóknarinnar heldur en þeir sem ekki fengu greiddar þess háttar bætur. Þetta kann að leiða til vanmats á atvinnuleysi fyrir júnímánuð.“
Í samtali við Kjarnann segir Anton Örn Karlsson, deildarstjóri hjá Hagstofunni, það ekki liggja fyrir hversu mikil áhrif möguleg brottfallsskekkja hafi á niðurstöðurnar. Tölurnar séu bráðabirgðatölur og þær verði endurskoðaðar áður en yfirlit yfir ársfjórðunginn verður birt.