Í gær greindust sex ný virk smit af kórónuveirunni á Íslandi. 21 er því nú með virkt smit, þar af eru tíu innanlandssmit. Allir hinna sýktu eru í einangrun og 173 eru komnir í sóttkví.
Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, segir í samtali við Kjarnann að nú sé gríðarlega mikilvægt að halda áfram að sinna persónulegum sóttvörnum. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafi alltaf varað við því að hópsýkingar gætu komið upp í kjölfar tilslakana á takmörkunum.
Í gær greindust sex ný virk smit. Þrjú höfðu greinst í fyrradag. Jóhann segir smitrakningu að mestu lokið.
Á föstudag greindist einstaklingur, sem er með íslenska kennitölu og því tengslanet hér á landi, með virkt smit. Sá hafði hins vegar komið til landsins á erlendu auðkenni, þannig hafi hann flokkast sem ferðamaður við komuna og ekki fengið boð um seinni sýnatöku eins og Íslendingar og aðrir búsettir hér eiga að fá.
Íslensk erfðagreining er að raðgreina sýnin og í tveimur tilvikum hefur uppruni smit ekki enn fengist staðfestur. Í gær var upplýst að ÍE hefði fundið nýtt afbrigði af veirunni í nýjustu sýnunum sem þykir renna stoðum undir að þau hafi borist hingað frá útlöndum.
Handþvottur og sótthreinsun
Almannavarnir brýna fyrir fólki að halda áfram
einstaklingsbundnum sóttvörnum og er góður handþvottur og sótthreinsun
lykilatriði í því sambandi.
Helstu einkenni Covid-19 sýkingar minna á venjulega flensu;
• Hiti
• Hósti
• Bein- og vöðvaverkir
• Þreyta
• Meltingareinkenni (kviðverkir,ógleði/uppköst, niðurgangur) eru ekki mjög áberandi með COVID-19 en eru þó þekkt.
• Breytingu, eða tapi á bragð- og lyktarskyni er lýst hjá 20–30 prósent sjúklinga.
Sýni einstaklingur einkenni eða vakni grunur um smit í nærumhverfi skal hinn sami halda sig heima, hafa samband við sína heilsugæslu eða í gegnum netspjall á heilsuvera.is og óska eftir sýnatöku. Einnig er hægt að hafa samband við Læknavaktina í síma 1700.
Komi upp smit er smitrakning lykilatriði til þess að kanna mögulega útbreiðslu. Því minna almannavarnir og landlæknir á mikilvægi þess að fólk sæki Rakning C-19 appið í síma sína. Slíkt getur auðveldað smitrakningu.
Mikilvægar upplýsingar um Covid-19 má finna á vefsíðunni www.covid.is