1.
Í dag er ekkert bóluefni á markaði í heiminum sem kemur í veg fyrir að fólk sýkist af COVID-19. En fjölmargar rannsóknir standa nú yfir.
Kórónuveirur tilheyra „fjölskyldu“ veira sem geta valdið einkennum allt frá kvefi og upp í lífshættuleg veikindi. Veiran sem veldur COVID-19 er skyld þeirri sem olli SARS við upphaf aldarinnar. Þess vegna var hún nefnd SARS-CoV-2 og þess vegna eru vísindin ekki alveg á byrjunarreit þegar kemur að þróun bóluefnis. SARS-veiran er enn til á rannsóknarstofum en svo vel tókst að einangra hana að engin tilfelli smits hafa komið upp í fleiri ár.
Í kórónuveiru-fjölskyldunni eru hundruð veira en aðeins sjö þeirra sýkja menn. Auk veirunnar sem veldur COVID-19 tilheyra fjórar „kvefkórónuveirur“ henni og síðan tvær sem valda alvarlegum sjúkdómi í mönnum (SARS og MERS). Sýking af völdum annarra veira úr fjölskyldunni veitir ekki ónæmi fyrir þeirri nýju sem veldur COVID-19. Enn er ekkert bóluefni á markaði gegn sýkingum kórónuveira.
2.
En af hverju bíða allir eftir bóluefni við COVID-19? Reynslan er farin að sýna að takmarkanir á samkomum og ferðalögum og almennar smitvarnir hafa ekki dugað til að útrýma farsóttinni. Nýja kórónuveiran smitast mjög auðveldlega og einkennalaust fólk getur verið smitandi sem gerir það enn erfiðara að koma böndum á útbreiðsluna. Bóluefni er því líklega sú leið sem helst mun gagnast í baráttunni gegn sjúkdómnum og útbreiðslu veirunnar sem honum veldur.
3.
Yfirleitt tekur þróun bóluefnis mörg ár og jafnvel áratugi og tilraunir skila ekki alltaf árangri. Til dæmis hefur enn ekki tekist að búa til bóluefni gegni HIV-veirunni þótt áratugir séu síðan hún greindist fyrst í mönnum. Nú reyna vísindamenn að finna bóluefni gegn nýjum sjúkdómi á mettíma.
Kórónuveirur draga nafn sitt af því að yfirborðsprótín veiranna minna á kórónu eða sólkrónu, sem er ysti hjúpur sólarinnar. Það eru þessi prótein sem festa sig á frumur mannslíkamans og þróun bóluefnis miðar m.a. að því að ráðast gegn þessum prótínum og koma þannig í veg fyrir að veiran nái að festa sig við frumur okkar og fjölga sér.
4.
Nokkur ljón hafa orðið í veginum við þróun bóluefna gegn öðrum kórónuveirum. Nokkrar tilraunir voru gerðar á dýrum með bóluefni sem verið var að þróa gegn SARS. Flest þeirra bættu lífslíkur dýranna en komu ekki í veg fyrir að þau sýktust. Sum ollu aukaverkunum á borð við lungnaskemmdir. Annað vafaatriði er hversu lengi bóluefni mun veita okkur vörn gegn endurtekinni sýkingu.
5.
Bóluefni eru notuð til ónæmisaðgerða. Þau eru ýmist unnin úr veikluðum veirum eða bakteríum eða innihalda efni sem finnast inni í þessum sýklum. Mótefnin sjálf valda litlum einkennum en vekja upp vörn í líkamanum sem kemur í veg fyrir eða dregur úr líkum á að fólk veikist af sjúkdóminum sem bólusett er gegn. Líkt og í rannsóknum á öllum bóluefnum er nauðsynlegt að gera ítarlegar tilraunir á bóluefni gegn COVID-19 áður en það fer á markað.
6.
Nú er verið að nota nokkrar aðferðir við þróun bóluefnis gegn COVID-19. Við gerð hefðbundinna bóluefna er notast við veiklaða veiru og er ætlað að kynna ónæmiskerfi líkamans fyrir viðkomandi sýkli til að verja líkamann gegn smiti í framtíðinni. Þessi aðferð hefur m.a. verið notuð við gerð bóluefna gegn mislingum, hlaupabólu og bólusótt. Aðferðafræðin er þekkt en sagan segir okkur að slík bóluefni geta verið mjög lengi í þróun.
Önnur aðferð er að nota dauða veiru (óvirka) sem veldur þeim sjúkdómi sem bóluefnið á að gagnast gegn. Bóluefni sem þróuð hafa verið með þessum hætti valda þá ekki sýkingu heldur aðeins ónæmisviðbragði. Dæmi um bóluefni þar sem þessari aðferð er beitt eru þau sem notuð eru gegn hundaæði, lifrarbólgu A og inflúensu.
Þessi bóluefni eru þess eðlis að þau veita oft ekki fullkomna vörn og að auki getur þurft að endurtaka bólusetningu reglulega til að viðhalda vörninni.
Svo er það þriðja leiðin: Við þróun bóluefnis gegn COVID-19 er m.a. verið að reyna að nota uppskriftina úr erfðaefni (DNA) veirunnar í stað þess að nota veiklaða veiru að hluta eða í heild. Það er ekki endilega hægt að segja að um nýstárlega aðferð sé að ræða því reynt hefur verið að búa til bóluefni með sama hætti í mörg ár. Hins vegar hefur, enn sem komið er, ekkert bóluefni byggt á þessari aðferð farið í almenna notkun. Kosturinn við þessa leið er að hún gæti flýtt þróunarferlinu talsvert.
7.
Ástæðan fyrir því að það tekur svona langan tíma að þróa bóluefni er vegna þess að þau þarf að prófa í þaula áður en almenn notkun hefst. Þau eru prófuð á dýrum, svo litlum hópum fólks - aftur og aftur. Þá er framleiðsluferlið einnig tímafrekt.
Vísindamenn og yfirvöld freista þess nú að hraða þessu ferli en gæta áfram þeirrar varúðar sem er nauðsynleg. En engu að síður mun það alltaf taka að minnsta kosti 12-18 mánuði að þróa.
8.
Tugir bóluefna gegn COVID-19 eru í þróun. Þrjú þeirra eru þegar komin í þriðja fasa tilrauna; það sem verið er að þróa við Oxford-háskóla, það sem bandaríska lyfjafyrirtækið Moderna er að prófa sem og bóluefni sem fengið hefur nafnið CoronaVac og er í þróun í Kína. Öll þrjú bóluefnin eru sögð hafa vakið gott ónæmisviðbragð á fyrri stigum tilrauna.
Í þessum þriðja fasa er efnið prófað á stórum hópum fólks og þá ættu mögulegar aukaverkanir að koma fram. Aukaverkanirnar geta verið litlar en þær geta líka verið alvarlegar hjá litlum hópi fólks sem er bólusett. Sérfræðingur við bóluefnamiðstöð John Hopkins-háskóla orðar þetta svona í viðtali við Telegraph: „Þrátt fyrir þeirra gríðarlega framlag til bættrar heilsu þá fylgir öllum bóluefnum einhver áhætta.“ Það sé svo samfélagsins og einstaklinganna að vega og meta þá áhættu.
Þriðji fasi klínískra rannsókna á Moderna-bóluefninu hófst í gær. Um þrjátíu þúsund sjálfboðaliðar í Bandaríkjunum munu á næstu dögum fá annað hvort bóluefnið eða lyfleysu.
9.
Heilbrigðisyfirvöld og lyfjaframleiðendur víða um heim, í samstarfi við Alþjóða heilbrigðismálastofnunina (WHO), ætla í sameiningu að vinna að rannsóknum, framleiðslu og dreifingu á bóluefni gegn COVID-19. Verkefnið er kallað COVAX og Íslendingar eru þátttakendur í því. Lokamarkmið þess er að fyrir lok ársins 2021 verði búið að framleiða tvo milljarða skammta af öruggu og áhrifaríku bóluefni. Því verði dreift jafnt meðal allra þátttökuþjóða miðað við íbúafjölda og þeir fyrstu sem eiga að fá það eru heilbrigðisstarfsmenn.
10.
Margir sérfræðingar spá því að bóluefni gegn COVID-19 verði tilbúið um mitt næsta ár. Sumir eru djarfari í spádómum sínum og telja það verða aðgengilegt strax í byrjun þess árs og þá aðeins um ári eftir að veiran uppgötvaðist. Enn aðrir vara við of mikilli bjartsýni og vilja bíða og sjá hvernig lokastig klínískra rannsókna tekst til.
Samantektin er byggð á svörum á Vísindavefnum (hér og hér), samantekt Hvatans, staðreyndavakt John Hopkins, Mayo Clinic, WHO og fleiri sem og fréttum fjölmiðla, m.a. frá Time og Telegraph.