Staðfest virk smit af kórónuveirunni eru nú orðin 39 hér á landi. Einn hefur verið lagður inn á sjúkrahús með COVID-19. Tilfellum af COVID-19 hefur því fjölgað um tíu síðan í gær.
Í gær voru staðfest smit 28 og af þeim höfðu átján einstaklingar smitast hér á landi.
Í dag eru 215 manns komin í sóttkví en í gær var fjöldinn 187.
Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, sagði á blaðamannafundi í dag að stór hópsýking væri nú á suðvesturhorni landsins sem hafi fimm aðskilda anga sem þó allir tengjast. 24 einstaklingar teljast til þeirrar hópsýkingar. Þá eru fjórir einstaklingar í annarri hópsýkingu.
Mjög margir af þeim sem greindust í gær voru í sóttkví en ekki allir. Því er ekki vitað hversu margir endi í sóttkví eftir daginn.
Ýmsar samkomutakmarkanir munu taka gildi á hádegi á morgun. Þá mega aðeins 100 manns koma saman í stað 500 nú. Tveggja metra reglan verður tekin upp aftur og nú sem skilyrði. Verði henni ekki viðkomið skal fólk bera andlitsgrímur sagði heilbrigðisráðherra á blaðamannafundi í Safnahúsinu í dag.
Alma Möller landlæknir sagði að til þess að skimun á landamærum virki þurfi að skerpa á tvennu: Fólk verði algjörlega að halda sig til hlés þar til niðurstöður úr fyrri skimun hafa borist. „Við biðjum alla, meðal annars aðila í ferðaþjónustu að þetta sé virt.“
Í öðru lagi fór hún yfir mikilvægi heimkomusmitgátar. „Það er afar mikilvægt að fólk virði hana í hvívetna,“ sagði Alma og benti á að ef það yrði ekki gert gæti þurft að breyta henni yfir í sóttkví. Á meðan fólk bíður eftir niðurstöðum úr seinni sýnatöku á það að halda sig frá vinnu, ekki fara á mannamót eða í veislur ef þar eru fleiri en tíu manns.