Heildarfjöldi greiddra gistinátta í júní dróst saman um 72 prósent samanborið við sama mánuð í fyrra samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands. Þar af fækkaði gistinóttum á hótelum um 79 prósent og á gistiheimilum um 75 prósent. Minni fækkun varð á öðrum tegundum gististaða, sem eru meðal annars farfuglaheimili, orlofshús og tjaldsvæði. Þar nam fækkunin 63 prósentum.
Greiddar gistinætur ferðamanna á öllum stöðum voru um 263.400 í júní samanborið við 942.700 í sama mánuði í fyrra. Um 86 prósent gistinátta voru skráðar á Íslendinga, um 227.000, en um 14 prósent á erlenda gesti, um 36.400.
Í tilkynningu á vef Hagstofunnar segir: „Í lok mars tóku mörg hótel þá ákvörðun að loka tímabundið og voru enn 32 hótel lokuð í júní. Framboð gistirýmis minnkaði um 24% frá júní 2019, mælt í fjölda hótelherbergja, sem skýrist af lokunum hótela.“
Gistinætur á hótelum í júní voru 89.900 sem er fækkun um 79 prósent frá sama mánuði í fyrra. Um 16,8 prósent gistinátta á hótelum voru skráð á erlenda ferðamenn, eða 15.100. Gistinætur Íslendinga voru 74.800 eða 83,2 prósent. Herbergjanýting á hótelum í júní síðastliðnum var 20,5 prósent og dróst saman um 51,4 prósentustig frá því á sama tíma í fyrra.