Kjarninn miðlar, útgáfufélags Kjarnans og Vísbendingar, tapaði 5,7 milljónum króna á árinu 2019. Rekstrarniðurstaðan er í takti við áætlanir stjórnenda Kjarnans en hlutafé félagsins var aukið lítillega um mitt síðasta ár til að standa straum að skipulagsbreytingum sem fólu í sér frekari mannaráðningar. Tekjur jukust lítillega milli ára og gjöld jukust um tæp sjö prósent. Á árinu 2018 jukust tekjur Kjarnans um fjórðung frá árinu á undan.
Á árinu 2019 hætti Kjarninn samstarfi við aðra miðla sem staðið hafði yfir í nokkur ár. Annars er um að ræða sjónvarpsstöðina Hringbraut, sem rann inn í fjölmiðlafyrirtækið Torg á síðasta ári, og hins vegar fríblaðið Mannlíf, sem í dag er í útgáfuhléi.
Það sem af er árinu 2020 hafa tekjur Kjarnans frá síðasta ári vaxið og allt bendir til þess að útgáfufélagið rekið í jafnvægi í ár. Ef væntir styrkir til Kjarnans úr ríkissjóði vegna áhrifa COVID-19 faraldursins á fjölmiðlaumhverfið, sem taka mið af rekstri miðla í fyrra, væru bókfærðir á árinu 2019 þá hefði Kjarninn raunar skilað hagnaði á því ári einnig.
Eyrún Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Kjarnans, segir að fyrirtækið sé nú með sjálfbært rekstrarmódel þar sem reksturinn byggir alfarið á þremur reglulegum tekjustoðum: styrkjum frá lesendum í gegnum Kjarnasamfélagið, áskriftartekjum vegna Vísbendingar og enskra fréttabréfa og auglýsingasölu, sem fer fram í gegnum þriðja aðila. Um 90 prósent af öllum tekjum fari í að greiða starfsmönnum laun.
Mest hefur aukningin í lestri verið í yngri aldurshópunum og hjá konum. Fjöldi lesenda í aldurshópnum 18-24 ára hefur til að mynda tvöfaldast.
Kjarninn miðlar er fjölmiðlafyrirtæki sem var stofnað 2013, og er því sjö ára um þessar mundir. Það rekur fréttavefinn Kjarninn.is, gefur út daglegan morgunpóst og heldur úti hlaðvarpsþjónustu. Þá gefur Kjarninn út Vísbendingu, vikurit um viðskipti, efnahagsmál og nýsköpun, og ensk fréttabréf.
Ritstjórnarstefna Kjarnans er að leggja áherslu á gæði og dýpt í umfjöllunum sínum. Verulega hefur verið skerp á þeim áherslum síðastliðinn tvö ár.
Hluthafar Kjarnans miðla ehf.:
- HG80 ehf. í eigu Hjálmars Gíslasonar 17,68%
- Miðeind ehf. í eigu Vilhjálms Þorsteinssonar 17,21%
- Birna Anna Björnsdóttir 11,80%
- Magnús Halldórsson 11,32%
- Þórður Snær Júlíusson 10,01%
- Hjalti Harðarson 7,59%
- Fagriskógur ehf. í eigu Stefáns Hrafnkelssonar 4,67%
- Milo ehf. í eigu Gumma Hafsteinssonar og Eddu Hafsteinsdóttur 4.67 %
- Vogabakki ehf. í eigu Árna Haukssonar og Hallbjörns Karlssonar 4,67%
- Charlotta María Hauksdóttir og Úlfar Erlingsson 4,67%
- Birgir Þór Harðarson 2,37%
- Jónas Reynir Gunnarsson 2,37%
- Fanney Birna Jónsdóttir 0,93%