Mikill samdráttur varð í viðskiptum með hlutabréf í Kauphöll Íslands í síðasta mánuði, hvort sem miðað er við júlímánuð í fyrra eða júnímánuð í ár.
Heildarviðskipti með hlutabréf námu 23 milljörðum króna í júlí 2020. Í sama mánuði 2019 námu þau hins vegar 57,7 milljörðum króna. Því er um að ræða 60 prósent lækkun milli ára.
Þegar hlutabréfaviðskiptin í síðasta mánuði eru borin saman við slík sem framkvæmd voru í júní 2020 er staðan svipuð. Samdrátturinn nemur 54 prósentum og heildarviðskiptin fara úr 43,7 milljörðum króna í 23 milljarða króna.
Þetta kemur fram í viðskiptayfirliti sem Nasdaq Iceland, eigandi íslensku Kauphallarinnar, birti í dag.
Heildarmarkaðsvirði þeirra 24 félaga sem skráð eru annnað hvort á Aðalmarkað eða Nasdaq First North markaðinn var 1.225 milljarðar króna í lok síðasta mánaðar. Það er meira en það var fyrir ári síðan (1.172 milljarðar króna) og nánast það sama og í lok júní 2020, þegar það var 1.222 milljarðar króna.