Sjóðsfélagar í lífeyrissjóðum landsins greiddu upp lán hjá þeim fyrir 333 milljónir krónum meira en þeir tóku lán í júnímánuði. Það er í fyrsta sinn síðan að minnsta kosti í byrjun árs 2009 sem að uppgreiðslur lífeyrissjóðslána eru meiri en nýjar lántökur, en lánin eru tekin af sjóðsfélögum til fasteignakaupa. Þetta kemur fram í nýjum tölum Seðlabanka Íslands, en samantektir hans á nýjum útlánum lífeyrissjóða til heimila ná einungis aftur til janúar 2009.
Alls voru greidd upp verðtryggð lán hjá lífeyrissjóðum fyrir 896 milljónum krónum meira en slík lán voru tekin. Sjóðirnir lánuðu hins vegar út 563 milljónum krónum meira í óverðtryggð lán en var greitt upp af slíkum.
Ástæðan fyrir þessari stöðu er nokkuð einföld, vaxtalækkanir stóru bankana þriggja: Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka, á húsnæðislánum á síðustu mánuðum hafa gert húsnæðislán þeirra þau hagstæðustu, ef frá eru talin húsnæðislán sem Birta lífeyrissjóður býður sjóðfélögum sínum. Lán Birtu eru hins vegar að hámarki fyrir 65 prósent af kaupverði á meðan að bankarnir lána fyrir 70 prósent þess.
Forskotið farið
Lífeyrissjóðirnir hafa verið með forskot á húsnæðislánamarkaði frá haustið 2015, þegar þeir hófu að bjóða upp á skaplegri lánaskilyrði og kjör. Viðskiptabankarnir töldu sig ekki geta keppt við þá vexti sem sjóðirnir buðu upp á, og því flykktust viðskiptavinir yfir til þeirra.
Alls lánuðu lífeyrissjóðir landsins 101,6 milljarðar króna í sjóðsfélagalán á árinu 2019. Það er hæsta upphæð í krónum talið sem þeir hafa nokkru sinni lánað til íbúðarkaupa, en fyrra metið var 99,2 milljarðar króna árið 2017. Þegar tekið er tillit til verðbólgu síðustu tveggja ára var raunvirði útlána þó hæst á því ári.
Framan af ári virtist ekki ætla að vera mikil breyting á þessu. Í janúar voru ný útlán lífeyrissjóða 11,6 milljarðar króna. Í febrúar lánuðu þeir 7,6 milljarða króna og í mars 6,8 milljarðar króna. Í apríl og mái snerist taflið þó hratt við og útlánin drógust skarpt saman. Í maí námu þau 918 milljónum króna, sem er eitt áttundi af því sem lífeyrissjóðirnir lánuðu til húsnæðiskaupa í sama mánuði í fyrra.
Ástæðuna er að finna í annars vegar skarpri stýrivaxtalækkun Seðlabanka Íslands, sem hafa fóru úr 4,5 prósentum í eitt prósent á 13 mánuðum, og hafa aldrei verið lægri. Hana er líka að finna í því að Seðlabankinn aflétti tveggja prósenta sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki í mars. Afléttingin hefur það í för með sér að aukið svigrúm skapast til nýrra útlána.
Þá var samþykkt að lækka bankaskatt úr 0,376 prósentum í 0,145 prósent fyrir árslok. Það hefur aukið svigrúm viðskiptabanka til útlána.
Þeir brugðust við, líkt og áður sagði, með því að keyra niður vexti. Þetta leiddi til þess að nettó ný útlán bakanna voru 27,5 milljarðar króna í júní síðastliðnum, en höfðu til samanburðar verið tæplega ellefu milljarðar króna í janúar 2020.