Einbúavirkjun í Skjálfandafljóti, sem er áformuð í Bárðardal í Þingeyjarsveit, myndi raska eldhrauni sem nýtur sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd og forðast ber að raska nema vegna brýnna hagsmuna sem í greinargerð með núgildandi náttúruverndarlögum hafa verið túlkaðir sem brýnir almannahagsmunir. „Skipulagsstofnun telur að ekki hafi verið sýnt fram á brýna nauðsyn fyrir röskun hraunsins og telur stofnunin að setja verði það sem skilyrði við leyfisveitingar að mun ítarlegri rökstuðningur liggi fyrir.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í áliti stofnunarinnar á matsskýrslu Einbúavirkjunar ehf. sem fyrirhugar 9,8 MW rennslisvirkjun í landi jarðanna Kálfborgarár og Einbúa í Bárðardal. Einabúavirkjun yrði fyrsta virkjunin í Skjálfandafljóti en tvær virkjanahugmyndir, Fljótshnúksvirkjun og Hrafnabjargavirkjun, eru í verndarflokki 3. áfanga rammaáætlunar en þingsályktunartillaga þar um hefur nú beðið afgreiðslu á Alþingi í fjögur ár. Einbúavirkjun fellur hins vegar ekki undir ákvæði laga um verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun) þar sem hún er undir 10 MW að uppsettu afli.
Einbúavirkjun ehf. er í eigu Hilmars Ágústssonar og Kristjáns Gunnars Ríkharðssonar í gegnum félögin Kepler ehf. og SIKMAS ehf. Markmið Einbúavirkjunar ehf. er að „stuðla að arðbærri framleiðslu rafmagns á Norðurlandi sem leitt geti til áframhaldandi vaxtar og uppbyggingar atvinnulífs á svæðinu,“ segir í matsskýrslu.
Við virkjunina stendur til að nýta 24 metra fall á um það bil 2,6 kílómetra kafla Skjálfandafljóts. Samkvæmt hugmyndum virkjunaraðila verður reist það sem í matsskýrslu er kallað yfirfall, 185 metra og 1,6 metra hátt, þvert yfir fljótið. Þar sem ekki myndist uppistöðulón við virkjunina sé ekki um stíflu að ræða. „Yfirfall við inntak hennar myndar mótstöðu við rennsli Skjálfandafljóts sem beinir hluta rennslisins til virkjunarinnar,“ segir í skýrslunni. Vatni verði veitt úr yfirfallinu um 1,3 kílómetra langan aðrennslisskurð að stöðvarinntaki. Stöðvarhús á að reisa skammt neðan við inntakið og þaðan verður frárennsli veitt um 1,3 kílómetra langan veg út í Skjálfandafljót til móts við bæinn Einbúa.
Í matsskýrslu Einbúavirkjunar ehf., sem unnin er af Verkís, eru lagðir fram tveir kostir um tilhögun virkjunarinnar, annars vegar kostur A sem gerir ráð fyrir að fráveita frá stöðvarhúsi verði að hluta í jarðgöngum en veita aðrennslis og frárennslis að öðru leyti í skurði og hins vegar kostur B sem geri ráð fyrir að veituleiðir verði eingöngu í skurði. Yfirfallið mun beina vatni inn í aðrennslisskurð virkjunarinnar og við mynni skurðarins verður reist inntaksvirki með lokum og þar fyrir framan staðsett um 25 m langt ísfleytingaryfirfall (krapafleyta) sem hindrar að rekís og krapi berist inn í aðrennslisskurðinn. Fram kemur að byggður verði fiskistigi við vesturbakka fljótsins til að tryggja að yfirfallið hindri ekki göngu hrygningarlaxa.
Frá inntaksvirki við fljótsbakkann er gert ráð fyrir að grafa og sprengja rúmlega eins kílómetra langan aðrennslisskurð í landi Kálfborgarár og mun hann að miklu leyti liggja um tún bæjarins.
Upptök Skjálfandafljóts, sem er jökulskotin dragá, eru í Tungnafellsjökli og Vatnajökli, 178 kílómetra frá ósi og vatnasvið þess er áætlað tæplega 4.000 ferkílómetrar. Jökulvatnið kemur úr Bárðarbungu Vatnajökuls og úr Tungnafellsjökli, lindarvatn víðs vegar úr Ódáðahrauni í austri og mest dragvatn kemur úr vestri, af Sprengisandi og úr vesturhlíðum Bárðardals.
Meðalrennsli Skjálfandafljóts á fyrirhuguðum virkjunarstað er áætlað um 88 m3/s. Virkjað rennsli yrði 47 m3/s. Rennsli er öllu meira á sumrin en á veturna en vatnsrennslið yfir veturinn er að meðaltali um 55-60 m3/s. Virkjunaraðili hyggst tryggja að rennsli um áhrifasvæði verði aldrei minna en 6 m3/s.
Mun rýra verndargildi Skjálfandafljóts
Náttúruverndarnefnd Þingeyinga, sem var einn umsagnaraðila í skipulagsferli fyrirhugaðrar virkjunar, benti í umsögn sinni á að það sem lá til grundvallar tillögu um friðun Skjálfandafljóts hafi verið að rennslisstýring hafi í för með sér nær algera röskun á jarðfræðilegu ferli. „Stífla Einbúavirkjunar í Skjálfandafljóti muni hamla því að vatn, aur og ís renni óhindrað eftir farvegi Skjálfandafljóts með þeim hætti sem nú er,“ segir í umsögninni. Stíflan leiði til þess að stór hluti rennslis fljótsins verði tekið úr farvegi árinnar á tæplega þriggja kílómetra löngum kafla. Á þeim kafla muni farvegurinn standa nær vatnslaus við lágmarksrennsli að vetri og ekkert vatn muni þá flæða yfir stífluna. „Einbúavirkjun muni rýra verndargildi fljótsins verulega. Líta verði til þess að tjón af fyrstu virkjun er hlutfallslega meira en þeirra sem á eftir koma. Því ætti Einbúavirkjun að haldast í hendur með öðrum virkjunarkostum í Skjálfandafljóti sem voru metnir í rammaáætlun 3.“
Í áliti Skipulagsstofnunar á matsskýrslunni kemur fram að skýrslan uppfylli að mestu skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum og að umhverfisáhrifum hafi verið lýst á fullnægjandi hátt. Óvissa sé þó um hvernig eigi að viðhalda því aurmagni sem berst á náttúrulegan hátt þrátt fyrir stíflun Skjálfandafljóts og verulegri skerðingu á rennsli árinnar á kafla, auk þess sem óvissa er um áhrif á lax og straumönd.
Í álitinu er bent á að fyrirhugaðar framkvæmdir, hvort sem tilhögun A eða B verður fyrir valinu, hafa nokkuð neikvæð áhrif á gróður, m.a. á vistgerðir sem hafi mjög hátt verndargildi. Þar sem þessi gróðursvæði eru talin vera um 4 hektarar af öllu áhrifasvæði virkjunarinnar lítur Skipulagsstofnun hins vegar ekki svo á að votlendið sem fyrir raski yrði falli undir sérstaka vernd samkvæmt náttúruverndarlögum.
Aðra sögu er að segja um jarðmyndanir en Bárðardalshraun, hulið gróðri og jarðvegi, er innan fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis. Hraunið nýtur sérstakrar verndar og telur stofnunin að um verði að ræða áhrif sem séu umfangsmikil, óafturkræf og líta megi á sem talsvert neikvæð. Þá myndi virkjunin hafa neikvæð áhrif á fugla, bæði vegna rasks og ónæðis á framkvæmdatíma sem og þar sem fuglar glata búsvæðum sínum að framkvæmdum loknum.
Skipulagsstofnun telur ljóst að Einbúavirkjun myndi verða inngrip í vatnafar Skjálfandafljóts og hafa neikvæð áhrif á það vegna skerts rennslis, einkum að vetri til. Líta beri þó til þess að um hlutfallslega stuttan kafla fljótsins sé að ræða. Hins vegar telur stofnunin óvissu uppi um áhrif virkjunar á náttúrulegan aurburð fljótsins og leggur áherslu á mikilvægi vöktunar á þessum þætti ef af virkjun verður.
Skipulagsstofnun telur að helstu neikvæðu áhrif framkvæmdarinnar felist í breyttu yfirbragði nærsvæðis virkjunarinnar með tilkomu ýmissa mannvirkja sem koma til með að breyta ásýnd hefðbundins landbúnaðarhéraðs í svæði sem ber einkenni iðnaðarsvæðis „með umfangsmiklum skurðum fyrir aðveitu og fráveitu, stöðvarhús, vegum og brúm sem og stíflum og inntaksvirkjum, auk aurskolunarmannvirkja sem stinga að öllu leyti í stúfa við það umhverfi sem er á svæðinu við núverandi aðstæður“. Segir í áliti stofnunarinnar að skurðirnir muni hafa neikvæðustu áhrif á ásýnd og yfirbragð auk þess sem rennsli fljótsins á kafla yrði aðeins brot af náttúrulegu rennsli sem myndi hafa varanleg áhrif á ásýnd og landslag.
Einbúavirkjun ehf. hefur vísað til þess að að kostnaður við gerð aðrennslis í pípu sé of hár til að arðsemi næðist af framkvæmdinni. Að mati Skipulagsstofnunar er það þó æskilegur framkvæmdakostur með tilliti til umhverfisáhrifa að gera ráð fyrir að- og frárennslisgöngum/-pípum eins og frekast er kostur. Er það því niðurstaða Skipulagsstofnunar að umhverfisáhrif af valkosti A, þar sem gert er ráð fyrir jarðgöngum að hluta, séu minni en af valkosti B. Ætti því að gera tilhögun A að aðalvalkosti, sýni rannsóknir á jarðlögum fram á að slíkt sé gerlegt. Ætti framkvæmdaaðili að leggja fram gögn sem sýna fram á að slíkt sé ekki hægt, verði það raunin. Minnir stofnunin á að það sé hlutverk sveitarfélags, í samvinnu við framkvæmdaaðila, að fylgja þessu atriði eftir við deiliskipulagsgerð og undirbúning framkvæmdaleyfis.