Hlutfall fyrstu kaupenda af fasteignaviðskiptum var nærri 30 prósent á fyrsta ársfjórðungi ársins og um 28 prósent á öðrum ársfjórðungi en hlutfallið hefur aldrei verið hærra svo langt aftur sem gögn ná. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) sem kom út í dag.
Í skýrslunni segir að hlutfall fyrstu kaupenda hafi margfaldast frá árinu 2010 þegar það var í lágmarki. „Í kjölfar efnahagshrunsins má gera ráð fyrir að yngra fólk hafi ekki haft tök á að festa kaup á íbúð og hlutfallið þá lágt vegna þess. Þegar hagkerfið komst aftur á skrið eftir efnahagsskellinn má sjá hvernig hlutfallið tók aftur að hækka,“ segir í skýrslunni.
Fasteignaverð hækkar yfirleitt í takt við hagsveifluna sem gerir það að verkum að veðrými heimila eykst. Það gerir svo mörgum foreldrum kleift að lána afkvæmum sínum fyrir útborgun fyrstu kaupa, að því er fram kemur í skýrslunni. „Hins vegar gætu auknar heimildir til nýtingar á séreignarsparnaði til fasteignakaupa og skarpar lækkanir á vöxtum undanfarna mánuði hafa auðveldað þessum hópi að festa kaup á eigin húsnæði,“ segir í skýrslunni um mögulegar ástæður þessarar þróunar.
Mikil umsvif um þessar mundir
Fram kemur í skýrslu HMS að umsvif á fasteignamarkaði eru mikil um þessar mundir. Þau umsvif eru sögð athyglisverð fyrir þær sakir að á sumrin eru umsvif fasteignaviðskipta að jafnaði minni en á öðrum árstímum.
Samkvæmt skýrslunni var fjöldi þinglýstra kaupsamninga í júlí nokkuð meiri en hann hefur verið í öðrum mánuðum ársins og er fjölgunin bundin við Reykjavík. „Vísbendingar eru um að afgreiðslutími þinglýsinga hafi aukist þó nokkuð á síðustu tveimur mánuðum sem getur bent til þess að mælikvarðinn fjöldi þinglýstra kaupsamninga feli í sér vanmat á umsvifum á fasteignamarkaði um þessar mundir,“ segir enn fremur í skýrslunni.
HMS fylgist einnig með framboði á íbúðum í sölu. Á höfuðborgarsvæðinu hafi verið um 2.000 íbúðir til sölu í maí en fjöldi þeirra sé nú um 1.700. Íbúðum í sölu hefur því fækkað um 15 prósent á höfuðborgarsvæðinu og annað eins í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Á landsbyggðinni hefur íbúðum í sölu fækkað um átta prósent á sama tímabili.
Fasteingaverð hækkar á ný
Í skýrslunni kemur fram að vísitala paraðra viðskipta gefi til kynna að fasteignaverð hafi undanfarið verið að rísa í öllum landshlutum. „Síðustu mánuði hefur hækkun fasteignaverðs verið hófleg víðast hvar á landinu og framan af ári hægðist á hækkunartaktinum en nú má sjá að leitni fasteignaverðs hefur tekið að hækka á ný,“ segir um verðþróunina í skýrslunni.
Tólf mánaða hækkun fasteignaverðs í júní hafi verið mest í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, þar hafi vísitala paraðra viðskipta hækkað um rétt tæp átta prósent að nafnvirði á milli ára. Á milli mánaðanna maí og júní mældist hækkunin 1,7 prósent. Á höfuðborgarsvæðinu hækkaði íbúðaverð að nafnvirði um 5,1 prósent á milli ára. Þar var hækkunin hins vegar mest á milli mánaða en í júní hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 3,3 prósent frá því í maí. Árshækkun á landsbyggðinni nam 3,5 prósentum en á milli mánaðanna maí og júní lækkaði íbúðaverð á landsbyggðinni um 2,5 prósent.