Sigurður Erlingsson, fyrrverandi forstjóri Íbúðalánasjóðs, hefur verið ráðinn sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Suður-Þingeyinga og mun hefja störf hjá sjóðnum á næstu dögum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sjóðnum, en aðalstarfsstöð sparisjóðsins er á Laugum í Reykjadal, auk þess sem starfsstöðvar eru í Mývatnssveit og á Húsavík.
Síðastliðin þrjú ár hefur Sigurður starfað sem fjármálastjóri bílaumboðsins Heklu og setið í framkvæmdastjórn félagsins, en á árunum 2010-2015 var Sigurður forstjóri Íbúðalánasjóðs.
Hann starfaði hjá Landsbanka Íslands hf. frá 2000-2008, fyrst sem sérfræðingur í greiningardeild en lengst af sem forstöðumaður á alþjóðasviði bankans. Frá 2008-2010 starfaði Sigurður sem verkefnastjóri í fjárhagslegri endurskipulagningu stærri fyrirtækja hjá NBI hf., nýja Landsbankanum.
Sigurður hefur einnig starfað sem millistjórnandi á fjármálasviði fyrirtækja, við ráðgjöf, og setið í stjórnum fyrirtækja og félagasamtaka og verið stundakennari í fjármálanámskeiðum bæði við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík og við Opna Háskólann í HR frá 2001, þar sem hann hefur m.a. kennt og verið prófdómari í námi í verðbréfaviðskiptum.
Hann er með próf í viðskiptafræði frá Andrews University í Bandaríkjunum, próf í verðbréfamiðlun, með M.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands með áherslu á fjármál og MBA frá Háskólanum í Reykjavík.
Sigurður er giftur Nönnu Guðnýju Sigurðardóttur sjúkraþjálfara sem starfar sem gæðastjóri Hrafnistuheimilanna og saman eiga þau tvo drengi.
Samkvæmt samþykktum sparisjóðsins telst starfssvæði hans vera Þingeyjarsýslur þó viðskiptavinir sjóðsins séu dreifðir um allt land. Stöðugildi hjá sjóðnum voru 10,5 í árslok 2019.
Sparisjóðurinn er sjálfseignarstofnun sem hefur það hlutverk að stunda svæðisbundna fjármálastarfsemi á grundvelli samfélagslegrar ábyrgðar. Er það hlutverk hans að standa vörð um og þróa atvinnulíf, mannlíf og velferð svæðisins.