Fyrirhuguðu hlutafjárútboði Icelandair Group hefur verið frestað fram í september. Þetta kemur fram í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í kvöld. Upphaflega stóð til að hlutafjárútboðið færi fram í júní en ekki náðist að standa við þá tímalínu og því frestað fram í ágúst. Nú hefur það færst enn aftar.
Upphaflega stóð til að safna allt að 200 milljónum dölum, um 27 milljörðum króna, í útboðinu. Nú hefur verið ákveðið að lækka þá upphæð og er nú stefnt að því að selja nýja hluti fyrir 20 milljarða króna að nafnverði á genginu ein króna á hlut. Það er mun lægra gengi en er á bréfum Icelandair í Kauphöll Íslands en við lokun markaða í dag var það 1,64 krónur á hlut. „Komi til umframeftirspurnar í hlutafjárútboðinu, myndi stjórn félagsins hafa heimild til að auka hlutafé enn frekar um allt að 3 milljarða þannig að stærð útboðsins yrði að hámarki 23 milljarðar króna,“ segir í tilkynningu sem send var út í dag.
Þurfa samþykki hluthafa til að framlengja heimild
Hluthafar í Icelandair þurfa að samþykkja að framlengja heimild félagsins til hlutafjáraukningar, en hún var veitt 22. maí síðastliðinn og rennur út 1. september. Vegna þessa mun Icelandair boða til nýs hluthafafundar á næstu dögum.
Í tilkynningunni sem send var út í kvöld segir að til viðbótar sé gert ráð fyrir því að tillaga verði lögð fyrir hluthafafund sem felur í sér að stjórn félagsins verði heimilt að ákveða að hinum nýju hlutum í félaginu fylgi áskriftarréttindi sem samsvari allt að 25 prósent af skráningu nýrra hluta í fyrirhuguðu útboði. „Heimilt yrði að nýta þau í einu lagi eða í skrefum á allt að tveggja ára tímabili frá útgáfu samkvæmt nánari skilmálum sem stjórn ákveður.“
Icelandair Group tilkynnti fyrir sex dögum að félagið væri búið að undirritað samninga við alla kröfuhafa sína og væri auk þess búið að ná endanlegu samkomulagi við bandaríska flugvélaframleiðandann Boeing vegna kyrrsetningar MAX flugvéla.