Drífa Snædal forseti Alþýðusambands Íslands segir að það sé „eitthvað einstaklega mannfjandsamlegt“ við það að Samtök atvinnulífsins „séu beinlínis í herferð gegn hækkun atvinnuleysisbóta“, en forsvarsmenn SA hafa undanfarna daga komið fram í fjölmiðlum og sagt varhugavert að hækka atvinnuleysistryggingar.
Drífa fullyrðir, í færslu á Facebook, að undirliggjandi í þessum skilaboðum frá SA sé „óttinn við að hafa ekki aðgang að vinnuafli“ og að „þurfi að svelta fólk til að það vinni.“
„Mannúðlegri stefna er að tryggja að þó fólk missi vinnuna hafi það möguleika á að framfleyta sér, borga húsnæðiskostnað, kaupa í matinn og lifa mannsæmandi lífi,“ skrifar Drífa, en ASÍ hefur krafist þess að stjórnvöld hækki atvinnuleysisbætur þannig að grunnatvinnuleysisbætur verði 95 prósent af lægstu launum á vinnumarkaði samkvæmt kjarasamningum, eða 318.250 krónur.
Forseti ASÍ segist eiga „erfitt með að trúa því að fyrirtæki innan SA styðji almennt við þessa herferð samtaka sinna.“
„Ef það á að halda fólki við hungurmörk í atvinnuleysi hefur fólk ekki möguleika á að versla við fyrirtæki og halda þeim þannig gangandi. Það er vítahringur sem vert er að forðast,“ segir Drífa og vísar þannig í titil greinar sem Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, ritaði í Fréttablaðið í síðustu viku.
Þar varaði Anna Hrefna við því að atvinnulífið myndi þurfa að standa undir kostnaði við hærri atvinnuleysisbætur:„Það er óábyrgt að kalla eftir nýjum loforðum án þess að gerð sé grein fyrir afleiðingum þeirra og kostnaði fyrir skattgreiðendur. Enn óábyrgara er fyrir stjórnmálamenn að láta undan slíku ákalli án þess að ganga úr skugga um að hægt sé að fjármagna loforðin á sjálfbæran hátt. Tekjur ríkissjóðs eru takmarkaðar. Síaukin skattheimta leiðir til stöðnunar í hagkerfinu sem skerðir getu hins opinbera til að standa undir velferðarsamfélaginu til lengdar. Það er varasamur vítahringur,“ skrifaði Anna Hrefna meðal annars.