Ætla má að um 300 alþjóðasamningar frá árunum 2007-2018 bíði þess að vera birtir í C-deild Stjórnartíðinda, þrátt fyrir að hafa verið fullgiltir af íslenskum stjórnvöldum.
Þetta má rekja til þess að dregið var verulega úr fjármunum til þess að birta slíka samninga eftir efnahagshrun, samkvæmt svari Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns utan flokka, sem birt var á vef Alþingis í gær.
Forgangröðun við birtingu þeirra var endurskoðuð þannig að á áhersla hefur verið lögð á að birta samninga þar sem birting væri nauðsynleg forsenda réttaráhrifa.
„Þannig hafa t.d. samningar um upplýsingaskipti og tvísköttunarmál verið birtir, samningur um réttindi fatlaðs fólks og nýverið var birtur samningur um ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu,“ segir í svari ráðherra, en 10-12 ár geta liðið frá fullgildingu til auglýsingar í Stjórnartíðindum ef birtingin hefur ekki bein réttaráhrif.
Þarf að vera á hreinu hvaða reglur eru í gildi
Andrés Ingi segir í samtali við Kjarnann að málið snúist um að almenningur viti hvaða reglur séu í gildi. „Á meðan að alþjóðasamningar eru óbirtir þá er það ekki alveg á hreinu,“ segir þingmaðurinn.
Í svari ráðherra við fyrirspurn Andrésar kemur einnig fram að fyrr á árinu hafi verið ákveðið að ráðast í átaksverkefni til að ljúka birtingu uppsafnaðra samninga á næstu þremur árum, en aðgerðaáætlun verkefnisins hafi tafist vegna heimsfaraldursins.
Andrés Ingi segir að samþykkt hafi verið að ráðast í átaksverkefnið á ríkisstjórnarfundi um mánuði eftir að hann lagði fram fyrirspurn sína, en þá hafði hann fengið ábendingu um að ráðuneytið væri komið með ansi langan hala af óbirtum fullgildum alþjóðaskuldbindingum á eftir sér, sem væntanlega hefði verið að valda einhverjum vandræðum hjá fólki, þá sérstaklega lögmönnum.
Samkvæmt svari ráðherra virðast samningarnir þó hættir að safnast upp í þeim mæli sem verið hefur, en fram kemur að unnið sé að því að birta alla samninga sem fullgiltir hafa verið frá 2019 og að stefnt sé að því að ljúka þeirri vinnu næsta haust.
Að meðaltali eru um 25-30 samningar fullgiltir á ári hverju, en síðustu tólf árum hafa ekki nema 5-7 verið birtir í Stjórnartíðindum árlega að meðaltali. Hinir, sem ekki hefur þótt brýnt að birta vegna réttaráhrifa, hafa fengið að bíða.
Í lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað er kveðið á um að fyrirmælum sem felast í lögum, auglýsingum, reglugerðum, samþykktum eða öðrum slíkum ákvæðum almenns efnis megi ekki beita fyrr en birting í Stjórnartíðindum fari fram, nema þau geymi ákvæði sem séu algerlega einkamálaeðlis og aðilar hafi komið sér saman um að skipti þeirra skuli fara eftir óbirtum fyrirmælum. Óbirt fyrirmæli binda þó stjórnvöld frá gildistöku þeirra.