Frá því maí síðastliðnum hafa rúmlega 14 þúsund umsóknir um endurgreiðslur virðisaukaskatts borist Skattinum. Frá til og með ágúst í fyrra bárust Skattinum samtals 3.542 slíkar beiðnir svo þær hafa fjórfaldast á milli ára. Þetta kemur fram í svari Skattsins við fyrirspurn Kjarnans um endurgreiðslu virðisaukaskatts.
Meðal þeirra ráðstafana sem stjórnvöld hafa gripið til í kjölfar kórónuveirufaraldursins er að hækka endurgreiðslu virðisaukaskatts tímabundið úr 60 prósentum upp í 100 prósent vegna endurbóta á íbúðarhúsnæði sem og að útvíkka endurgreiðsluheimildirnar. Nú fæst til dæmis virðisaukaskattur sem greiddur hefur verið vegna vinnu við bílaviðgerðir og heimilishjálp og -þrif að fullu endurgreiddur.
Rúmlega 18.500 endurgreiðslubeiðnir í ár
Í svari Skattsins við fyrirspurn Kjarnans um endurgreiðslur virðisaukaskatts segir að frá því í janúar 2020 hafi borist rúmlega 18.500 endurgreiðslubeiðnir vegna allra endurgreiðsluþátta. Í fyrra hafi 6.340 endurgreiðslubeiðnir borist Skattinum frá 1. janúar út ágúst. „Athuga þarf í þessu sambandi að endurgreiðslubeiðnir geta varðað kostnað sem fellur til eitthvað fyrr en beiðnin berst. Þannig voru 13.784 beiðnir vegna kostnaðar á árinu 2020 og 3.740 vegna kostnaðar á árinu 2019,“ segir í svarinu. Restin, um þúsund beiðnir hafi verið fyrir kostnað sem féll til enn fyrr.
Ef litið er til þrengra tímabils, þá hefur Skattinum borist rúmlega 14 þúsund umsóknir um endurgreiðslur af ýmsu tagi frá því í maí, samkvæmt svari Skattsins. Í fyrra nam fjöldi endurgreiðslubeiðna frá maí til og með ágúst um 3.500. Fjöldi umsókna hefur því fjórfaldast á milli ára á tímabilinu.
25 milljóna endurgreiðsla vegna bílaviðgerða
Útvíkkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts sem tók gildi fyrr í ár náði meðal annars til endurgreiðslu á vinnu vegna bílaviðgerða. Í svari Skattsins segir að umsóknir vegna bílaviðgerða séu orðnar rúmlega 5.200 talsins. Á þriðjudag var búið að afgreiða 1.631 umsókn samtals að fjáhæð rúmlega 25 milljóna króna.
Vegna endurbóta og viðhalds húsnæðis hefur Skattinum borist alls um 12 þúsund umsóknir frá upphafi árs, þar af hafa um 8 þúsund umsóknir borist frá 1. maí. „Á árinu 2020 er búið að afgreiða 12.369 umsóknir vegna endurbóta og viðhalds, þar af 3.434 vegna kostnaðar sem féll til á árinu 2020. Endurgreiðslur samkvæmt umsóknum vegna kostnaðar 2020 samkvæmt þessum 3.434 umsóknum nema 469.745.335 kr,“ segir í svari Skattsins.