Fasteignamarkaðurinn hefur verið líflegur í sumar, en mánaðarleg verðhækkun fasteigna á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki verið jafnmikil í rúm þrjú ár og hún var milli júní- og júlímánaðar. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun segir verðhækkanirnar vera í ljósi minnkandi framboðs íbúða til sölu, en búast megi við verðhækkunum á meðan eftirspurnin er jafnmikil og nú.
Samkvæmt nýjustu tölum Þjóðskrár hækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 1,2 prósent milli júní- og júlímánaðar. Sams konar verðhækkun hefur ekki verið jafnmikil síðan í maí 2017, en þá hafði vísitalan hækkað um 1,8 prósent frá mánuðinum á undan, líkt og sést á myndinni hér að neðan.
Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu heldur einnig áfram að hækka eftir að hafa tekið skarpa dýfu síðasta vetur og vor, en hún er núna á svipuðum slóðum og hún var við árslok í fyrra.
Þriðji umfangsmesti mánuðurinn í fimm ár
Samkvæmt frétt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar staðfesta nýju tölur Þjóðskrár mikil umsvif á fasteignamarkaði, en fjöldi þinglýstra kaupsamninga ríflega tvöfaldaðist á milli júní og júlí. Ef litið er til veltutalna var júlí þriðji umfangsmesti mánuðurinn á fasteignamarkaði í fimm ár, eða frá því í júlí 2015.
Hagfræðideild Landsbankans gerði aukin umsvif á fasteignamarkaði einnig að umfjöllunarefni í Hagsjá sinni í gær, en hún telur líklegt að um einhverja tímagjöf sé að ræða þar sem fáum kaupsamningum var þinglýst í mánuðunum á undan. Þó telur bankinn það vera ljóst að fasteignamarkaðurinn sé líflegur um þessar mundir þrátt fyrir veirufaraldur og efnahagslegar afleiðingar hans.
Verðhækkanir í ljósi minna framboðs
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun telur minnkandi framboð á höfuðborgarsvæðinu vera útskýringu á umræddum verðhækkunum, en samkvæmt síðustu mánaðarskýrslu stofnunarinnar voru um 1.700 íbúðir til sölu í júlímánuði á meðan þær voru um 2.000 í maí síðastliðnum. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins hefur íbúðum til sölu einnig fækkað um 15% frá því um miðjan maí en annars staðar á landsbyggðinni hefur fækkunin numið um 8%.