Ríkissjóður er aðalleikarinn í þessu verkefni, sagði Guðrún Johnsen hagfræðingur og efnahagsráðgjafi VR, er hún fór yfir hagræn áhrif kórónuveirufaraldursins í erindi sínu á samráðsfundi stjórnvalda um hvernig eigi að lifa með veirunni, sem fram fer í dag.
„Ríkissjóður er í aðalhlutverki í að koma okkur yfir gjánna sem nú hefur opnast fyrir fótum okkar, hvort sem okkur líkar betur eða verr,“ sagði Guðrún, sem fór yfir þau áhrif sem veirufaraldurinn hefur haft á heimshagskerfið. Hún nefndi að 14 prósent færri vinnustundir hefðu verið unnar á heimsvísu og að talið væri að 400 milljón störf hefðu tapast.
Guðrún fór einnig yfir samanburð á skuldastöðu ríkissjóða og benti á að Ísland væri í meðallagi skuldsett miðað við önnur OECD-ríki og hefði aukið skuldirnar minna en mörg önnur ríki á milli áranna 2007 og 2019. Hún sagði að hlutverk ríkissjóðs á þessum óvissutímum væri mikilvægt, það þyrfti að auka ríkisútgjöld hratt og lækka skuldir hægt.
Efnahagslegu viðbrögðin þyrftu þó að vera hnitmiðuð og að stjórnvöld þyrftu að passa að búa ekki til ofþenslu í einum geira í samfélaginu til þess að bæta upp fyrir slakann í öðrum geirum, til að verðbólga færi ekki að láta á sér kræla ofan á allt annað.
Hærri atvinnuleysisbætur leiði ekki til meira atvinnuleysis
Varðandi vinnumarkaðsaðgerðir af hálfu hins opinbera sagði Guðrún að vitað væri að ef hið opinbera hjálpaði til við að segja upp fólki, leiddi það til hærra atvinnuleysis. Að sama skapi sagði hún að það væri ekkert sem sýndi fram á að hóflega hækkaðar atvinnuleysisbætur myndu valda meira atvinnuleysi.
„Hvort sem þær eru hækkaðar um 20 þúsund eða 25 þúsund, til eða frá, það skiptir engu máli varðandi atvinnuleysi,“ sagði Guðrún og sagði það sökum þess að atvinnuleysistryggingin væri tímabundin.
Hún sagði þó að hið opinbera þyrfti að grípa til aðgerða til þess að hjálpa fólki að færa sig á milli starfsgreina og að launafólk þyrfti að sama skapi að auka sveigjanleika sinn og hafa vilja til þess að þjálfa sig inn í ný störf.
Töluvert hefur verið rætt um atvinnuleysisbætur í samfélaginu að undanförnu og hafa Samtök atvinnulífsins til dæmis farið í sérstaka auglýsingaherferð á samfélagsmiðlum þar sem varað er við hækkun þeirra, á meðan að Alþýðusamband Íslands hefur sett fram kröfu um að bætur verði hækkaðar.
Reikna má með að tekist verði á um atvinnuleysistryggingakerfið á vettvangi stjórnmálanna á næstunni, en Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra sagði í viðtali í Kastljósi í gærkvöldi að honum hugnaðist ekki að ráðast í þá hækkun grunnatvinnuleysisbóta sem verkalýðshreyfingin hefur farið fram á. Frekar kæmi til greina í hans huga að framlengja tímabundið tekjutengingartímabil atvinnuleysisbótanna, sem er í dag þrír mánuðir.
„Það þarf að vera hvati til að stíga skref inn á vinnumarkaðinn,“ sagði Bjarni í Kastljósi. Fjármálaráðherra sagðist hafa farið um landið í sumar og rætt við marga atvinnurekendur sem hefðu tjáð honum að erfitt væri að fá fólk til starfa þrátt fyrir stöðuna á vinnumarkaði.
Félagslegt virði veirufrelsis mikið
Guðrún sagði í erindi sínu að það stjórnvöld þyrftu á næstunni að „bæta skaðann og vinna friðinn,“ í þeirri meiningu að öllum hópum í samfélaginu þætti að tillit hefði verið tekið til þeirra hagsmuna þegar ákvarðanir voru teknar um fórnir.
Hún sagði að það væri til mikils að vinna með því að reyna að halda samfélaginu hér veirufríu, því að ef gert væri ráð fyrir því að hver og einn einstaklingur væri tilbúinn að greiða 1.000 krónur á dag fyrir það að geta lifað „eðlilegu lífi“, hitt fjölskyldu og vini að vild, farið og notið menningar, farið út að skemmta sér, þá væru það gæði sem mætti verðmeta á 120 milljarða króna á ársgrundvelli.