„Að lifa með veirunni er yfirskrift þessa viðamikla samráðs sem við hefjum í dag. Þetta samráð er bæði mikilvægt og í raun nauðsynlegt,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra er hún opnaði samráðsfund stjórnvalda um lífið í skugga kórónuveiruveirufaraldursins í dag.
Svandís sagði að samráðið sem hefjist með þessum fundi sé nauðsynlegt til þess að sætta ólík sjónarmið í samfélaginu varðandi sóttvarnaraðgerðir yfirvalda, því þær snerti mismunandi hópa í samfélaginu á mismunandi hátt, þrátt fyrir enginn fari varhluta af áhrifum þeirra í sínu daglega lífi.
„Það er mikil þörf á gagnkvæmum skilningi á mismunandi aðstæðum. Við þurfum á samstöðu að halda,“ sagði Svandís.
Samráðsfundur fer fram í formi vinnustofu og hefst á nokkrum örerindum, meðal annars frá þeim Guðrúni Johnsen hagfræðingi, Henry Alexander Henrysyni heimspekingi, Steinunni Gestsdóttur aðstoðarrektor HÍ og Unu Hildardóttur forseta Landssambands ungmennafélaga.
Síðan munu þátttakendur í fundinum fara í vinnuhópa um mismunandi málefni og afurðir þeirrar verða að sögn Svandísar lagðar fram á samráðsgátt stjórnvalda. Í hádeginu verða svo pallborðsumræður þar sem Svandís tekur þátt ásamt þríeykinu, Ölmu Möller landlækni, Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni og Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni.
Hægt er að fylgjast með fundinum í streymi hér að neðan.