Ferðakostnaður ríkissjóðs lækkaði á fyrstu sex mánuðum ársins um 1,1 milljarða króna, úr tveimur milljörðum króna í 900 milljónir króna. Lækkunin nemur 55 prósentum, en hana má rekja til heimsfaraldurs kórónuveiru. Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Fréttin hefur verið uppfærð þar sem í fyrstu tilkynningu ráðuneytisins sagði að ferðakostnaðurinn hefði lækkað mun meira, um 2,7 milljarða úr 6,7 milljörðum. Mistök urðu við vinnslu gagna í fyrri útgáfu, segir ráðuneytið.
Samkvæmt uppfærðri tilkynningu inniheldur ferðakostnaðurinn ferðalög og uppihald á ferðalögum, jafnt á Íslandi sem og erlendis, hjá öllum ráðuneytum og undirstofnunum þeirra. Til undirstofnana heyra háskólar, sjúkrahús, heilbrigðisstofnanir, auk sýslumanns- og lögreglustjóraembætti.
Í Stjórnarráðinu lækkaði ferðakostnaðurinn um 64 prósent á tímabilinu. Ferðakostnaður ráðuneytanna dróst saman um 100 milljónir króna, úr 160 milljónum árið árið 2019 niður í 60 milljónir á þessu ári.
Mesta hlutfallslækkun ferðakostnaðar er í samgöngu og sveitarstjórnarráðuneytinu þar sem hann lækkaði um 81 prósent en minnsta lækkun kostnaðarins var í mennta- og menningarmálaráðuneytinu þar sem ferðakostnaður lækkaði um 25 prósent á milli ára.