Novator, fjárfestingafélag sem er leitt af Björgólfi Thor Björgólfssyni, lánaði eiganda útgáfufélags DV og tengdra miðla 920 milljónir króna á rúmlega tveggja ára tímabili. Lánin, sem eru vaxtalaus og ekki með tilgreindan gjalddaga, eru ólíkleg til að innheimtast í ljósi þess að útgáfufélagið, sem ber nafnið Frjáls fjölmiðlun, var rennt inn í Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins, fyrr á þessu ári vegna þess að reksturinn stóð ekki undir sér og félagið var á fallandi fæti.
Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins Dalsdals ehf., sem átti útgáfufélags DV og tengdra aðila frá haustinu 2017 og fram á síðasta vor.
Eini lánveitandinn og helsti bakhjarl
Hlutverk Novator sem fjármagnanda fjölmiðlarekstursins var ekki opinberuð fyrr en um miðjan maí 2020, eftir að eigendaskipti höfðu orðið á Frjálsri fjölmiðlun. Það var gert í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að heimila samruna Frjálsrar fjölmiðlunar og Torgs.
Skráður eigandi Frjálsrar fjölmiðlunar var hins vegar, líkt og áður sagði, einkahlutafélagið Dalsdalur sem er í eigu lögmannsins Sigurðar G. Guðjónssonar. Hann var þráspurður um fjármögnun félagsins í fjölmiðlum en neitaði alltaf að svara því hvaðan rekstrarfé Frjálsrar fjölmiðlunar kæmi.
Hlutirnir í útgáfufélaginu metnir á 340 milljónir
Í ársreikningi Dalsdals segir að langtímaskuldir félagsins séu 920 milljónir króna. Þær hækkuðu um 175 milljónir króna á árinu 2019. Árið áður höfðu þær hækkað um 270 milljónir króna.
Eignir Dalsdals eru sagðar vera 900 milljón króna virði. Þar af eru hlutirnir í Frjálsri fjölmiðlun, sem var í miklum taprekstri og rekstrarvanda um síðustu áramót, metnir á 340 milljónir króna. Auk þess átti Dalsdalur skuldabréf upp á 560 milljónir króna sem eru tilkomin vegna lána til Frjálsrar fjölmiðlunar. Ekki er tilgreint hvenær skuldin er á gjalddaga, að öðru leyti en að það er að minnsta kosti ekki fyrr en eftir að árið 2022 er liðið.
Með kaupunum á DV og tengdum miðlum er Torg, sem tók líka yfir sjónvarpsstöðina Hringbraut og tengda miðla í fyrra, orðið að einu stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins.
Torg tapaði 212 milljónum króna á síðasta ári eftir að hafa skilað 39 milljóna króna hagnaði árið 2018. Stærsti eigandi Torgs er Helgi Magnússon fjárfestir, sem á 82 prósent í samstæðunni.