Þeir sem hafa verið atvinnulausir í sex mánuði eða lengur munu geta hafið nám næsta voru og fengið fullar atvinnuleysisbætur í eina önn, samkvæmt ákvörðun félags- og barnamálaráðherra.
Eftir fyrstu önnina þurfa viðkomandi síðan að taka lán hjá Menntasjóði námsmanna fyrir framfærslu sinni. Aðgerðirnar eru hluti af tillögum í mennta- og vinnumarkaðsmálum sem áætlað er að verja samtals 6,2 milljörðum króna í og er fjármögnun tryggð fyrir allt að þrjú þúsund atvinnuleitendur sem hafa verið án atvinnu í sex mánuði eða lengur og vilja skrá sig í nám í dagskóla á vorönn 2021, haustönn 2021 eða vorönn 2022. Kjósi atvinnuleitendur að hefja nám mun það ekki hafa áhrif á bótarétt og nýtingu hans.
Í tilkynningu frá félags- og barnamálaráðuneytinu segir að frítekjumark vegna skattskyldra tekna einstaklinga sem koma af vinnumarkaði hafi einnig verið hækkað úr 4,1 milljónum króna í 6,8 milljónir króna til að tryggja þessum hópi rýmri rétt til námslána þegar atvinnuleysisbótum sleppir.
Þar segir enn fremur að átakið afmarkist við starfs- og tækninám í framhaldsskóla eða háskóla en fyrirsjáanlegur skortur sé í þeim geirum. „Atvinnuleitendum verður einnig greidd leið í brúarnám. Þá verður háskólamenntuðum boðið upp á flýtileiðir til annarrar prófgráðu þar sem skortur er, til dæmis í og heilbrigðis- og kennslugreinum.“
Um helmingur þeirra sem hafa verið án atvinnu í sex mánuði eða lengur eins og er hafa einungis lokið grunnnámi.