Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið GRID hefur tryggt sér 12 milljón dala, rúmlega 1,6 milljarða króna, fjármögnun. Um er að ræða stærstu fjármögnun sem íslenskt sprotafyrirtæki hefur sótt áður en það byrjar að mynda tekjur, en varan sem GRID ætlar að selja í framtíðinni er enn í þróun.
Sjóðurinn sem leiðir fjármögnunina heitir New Enterprise Associates (NEA). Hann er alþjóðlegur fjárfestingarsjóður á sviði framtaksfjárfestinga með skrifstofur víða um heim. NEA sérhæfir sig í fjárfestingum á sviði tækni- og heilsugæslu á ýmsum þróunarstigum fyrirtækja og er með yfir 24 milljarði dala, um 3.300 milljarða króna, í stýringu hjá sér.
NEA hefur áður fjárfest í íslensku tæknifyrirtæki. Það gerðist í nóvember 2015 þegar sjóðurinn leiddi 30 milljón dala fjárfestingu í CCP.
Ætla að vaxa á Íslandi
Stofnandi og framkvæmdastjóri GRID er Hjálmar Gíslason, sem stofnaði áður, og seldi síðar, Datamarket sem seinna meir rann inn í Qlik. Hjálmar er einnig stærsti einstaki hluthafi Kjarnans með 17,7 prósent eignarhlut og stjórnarformaður rekstrarfélags miðilsins.
Starfsmenn GRID eru sem stendur á annan tug en og Hjálmar segir að stefnt sé á verulegan vöxt hérlendis í kjölfar fjármögnunarinnar. Til að mynda hafi þegar átta ný störf verði auglýst til umsóknar. Hann segir að höfuðstöðvar GRID verði á Íslandi og ekkert útlit fyrir að það muni breytast þó að settar verði upp söluskrifstofur erlendis.
GRID búið að sækja yfir tvo milljarða
Þetta er í þriðja sinn sem GRID lýkur fjármögnunarlotu en það tryggði sér eina milljón dali í október 2019, um 137,5 milljónir króna á núvirði, og 3,5 milljónir dala í mars í fyrra, sem er um 480 milljónir króna á núvirði.
Fjárfestingin sem átti sér stað í fyrirtækinu í mars í fyrra var leidd af BlueYard Capital fjárfestingasjóðnum með þátttöku aðila á borð við Slack Fund og Acequia Capital. Þeir taka allir þátt í fjármögnuninni sem greint var frá í dag, og leidd er af NEA.
Samanlagt nemur því fjárfestingin í GRID, sem var stofnað í ágúst 2018, vel yfir tveimur milljörðum króna.