Björn Víglundsson hefur verið ráðinn forstjóri Torgs ehf., útgáfufélags Fréttablaðsins, DV, Hringbrautar og tengdra miðla. Hann tekur við starfinu af Jóhönnu Helgu Viðarsdóttur sem verið hefur forstjóri félagsins og sinnt stjórnunarhlutverki tengt miðlum þess frá árinu 2016. Björn tekur við starfinu 1. september.
Björn var áður framkvæmdastjóri miðla hjá Sýn og hafði þar meðal annars það hlutverk að leiða samþættingu fjölmiðlahluta Sýnar við aðrar einingar félagsins í kjölfar þess að þær voru keyptar síðla árs 2017. Hann var hluti af þeirri framkvæmdastjórn Sýnar sem var sagt upp störfum í byrjun árs 2019. Undanfarið hefur hann stafað sem framkvæmdastjóri Iceland Travel.
Í frétt á vef Fréttablaðsins segir að Jóhanna hafi talið að nú væri tímabært að breyta til og hverfa til annarra verkefna.
Torg ehf. tapaði 212 milljónum króna á síðasta ári eftir að hafa skilað 39 milljóna króna hagnaði árið 2018. Rekstarniðurstaða félagsins (EBITDA) fyrir fjármagnsgjöld, afskriftir og skatta var neikvæð um 59 milljónir króna, en afskriftir námu alls 138 milljónum króna.
Félag í eigu Helga Magnússonar, fjárfestis og fyrrverandi stjórnarformanns Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, hefur keypti helmingshlut í Torgi um mitt ár í fyrra. Í október keyptu Helgi og samstarfsmenn hans hinn helminginn auk þess sem sjónvarpsstöðinni Hringbraut var rennt inn í reksturinn. Hún hafði þá verið rekin í umtalsverðu tapi og var skilgreind sem á fallandi fæti.
Helgi átti eftir það 82 prósent í Torgi en aðrir eigendur eiganda útgáfufélagsins, félagsins HFB-77 ehf., eru Sigurður Arngrímsson, fyrrverandi aðaleigandi Hringbrautar og viðskiptafélagi Helga til margra ára, með tíu prósent hlut, Jón G. Þórisson, ritstjóri Fréttablaðsins, með fimm prósent hlut, og Guðmundur Örn Jóhannsson, fyrrverandi sjónvarpsstjóri Hringbrautar og nú framkvæmdastjóri sölu, markaðsmála og dagskrárgerðar hjá Torgi.