„Ég er að kalla eftir því hvaða verkefni þetta eru og hve miklum fjármunum sé varið í tiltekin rannsóknarverkefni á hverjum og einum fiskistofni,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, en hún lagði undir lok síðustu viku fram tíu skriflegar fyrirspurnir til Kristjáns Þórs Júlíussonar landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra á þingi.
Inga spyr ráðherra út í rannsóknir Hafrannsóknastofnunar á mörgum þeim nytjastofnum sem veiddir eru við Íslandsstrendur og lúta fyrirspurnir hennar að því hversu miklum fjármunum hafi verið varið árlega frá 2015-2020 í rannsóknir á einstaka stofnum, til dæmis stofnum humars, rækju, hrognkelsa, ýsu, þorsks og makríls.
Einnig spyr hún hvaða tilteknu verkefni hafi verið unnin hjá Hafrannsóknastofnun varðandi hvern og einn stofn og hversu margar ritrýndar vísindagreinar eftir sérfræðinga Hafró hafi birst í alþjóðlegum vísindatímaritum um hvern og einn þeirra tíu stofna sem fyrirspurnirnar lúta að.
„Við, íslenska þjóðin, veitum um það bil 6.000 milljónum, sex milljörðum til rekstur Hafrannsóknastofnunar og þetta er vísindastofnun og það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að kallað sé eftir nánari upplýsingum um það hverjar séu áherslur á rannsóknir hinna ýmsu nytjastofna og rýna í það hver hin vísindalegi afrakstur er í formi framlags til birtingar á nýrri þekkingu,“ segir Inga í samtali við Kjarnann, spurð út í ástæður þess að hún óskar svara ráðherra við þessum spurningum.
Inga segir við blaðamann að hún telji að það séu ekki margir inni á þingi sem séu að taka utan um sjávarútveginn sem slíkan, en Flokkur fólksins sé að setja málaflokkinn á oddinn.
„Við munum halda áfram að kryfja þetta til mergjar. Við viljum breyta uppbyggingunni á fiskveiðistjórnunarkerfinu eins og við þekkjum það í dag og erum akkúrat núna í þessum töluðu orðum í fullri, rosa flottri vinnu, sem verður okkar skýra stefna í Flokki fólksins þegar við erum að ganga inn í þennan fína kosningavetur,“ segir Inga.