Fjármálaráð telur að tillögð fjármálastefna ríkisstjórnarinnar sé „ósamhverf og óskýr“ þar sem hún leyfir mikinn hallarekstur í kreppu en veiti ekki aðhald ef hagvöxtur er meiri en búist var við. Þetta kemur fram í umsögn fjármálaráðs sem lagt var fram á Alþingi í dag.
Vill rýmka skilyrði til að bregðast við kreppunni
Umsögnin var lögð fram vegna breytinga sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lagði til á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar í síðustu viku til að bregðast við atvinnuleysi sem gæti orðið til vegna yfirstandandi efnahagskreppu.
Breytingarnar snúa fyrst og fremst að því að núverandi fjármálastefnu, sem gildir fyrir árin 2018-2022, verði breytt þannig að halli á rekstri hins opinbera verði að hámarki 7-16 prósent af landsframleiðslu.
Þetta bil er að meðtöldu ákveðnu svigrúmi sem fer eftir því hvernig efnahagsástandið þróast á næstu þremur árum, en ríkissjóður hefur heimild til þess að auka opinber útgjöld ef hagvöxtur er minni en búist var við.
Hætta á lausung
Samkvæmt umsögn fjármálaráðs á tillögunum er vandasamt að byggja stefnumörkun opinberra fjármála á hagspám á þessum tímum, þar sem meiri óvissa ríkir um hagþróun en nokkru sinni áður. Þessi óvissa endurspeglist í því breiða bili sem ríkisútgjöldum er gefin í tillagðri fjármálastefnu.
Einnig vill fjármálaráð meina að ekki komi nægilega skýrt fram hvert aðhaldið á ríkisfjármálum sé verði efnahagsþróunin hagfelldari en nú er gert ráð fyrir og segir stefnuna vera ósamhverfa og óskýra að því leyti. „Ef áfallið verður minna er viss hætta á að lausung skapist í fjármálastjórninni,“ segir í umsögninni.