Eitt hundrað milljón króna þak var sett á stuðning við hvert fjölmiðlafyrirtæki. Árvakur fær samkvæmt úthlutuninni 99,9 milljónir, Sýn 91,1 milljón og Torg 64,7 milljónir. Tuttugu fjölmiðlafyrirtæki til viðbótar skipta svo þeim 150 milljónum sem eftir eru af stuðningsupphæðinni á milli sín.
Birtíngur útgáfufélag, sem gefur út Mannlíf, fær 24,5 milljónir, Myllusetur, sem gefur m.a. út Viðskiptablaðið og Fiskifréttir, fær 20 milljónir, útgáfufélag Stundarinnar fær tæpar 17,8 milljónir, N4 fær 13,5 milljónir og útgáfufélag Kjarnans fær tæpar 9,3 milljónir króna.
Bændasamtök Íslands, sem gefa út Bændablaðið, fá einnig tæpa 9,3 milljónir króna og næst á lista eru svo héraðfréttamiðlarnir Víkurfréttir og Skessuhorn, sem fá vel á áttundu milljón í stuðning. MD Reykjavík, sem gefur út tímaritið Iceland Review, fær 5,9 milljónir króna og Útvarp Saga fær 5,2 milljónir. Aðrir miðlar fá minna.
Alþingi samþykkti sl. vor að verja 400 milljónum kr. til verkefnisins og fól ráðherra að setja reglugerð um úthlutunina. Í henni var tilgreint að við ákvörðun um fjárhæð stuðnings yrði litið til tryggingagjalds vegna launagreiðslna til blaða- og fréttamanna, myndatökumanna, ljósmyndara, ritstjóra og aðstoðarritstjóra á árinu 2019 vegna miðlunar á fréttum og fréttatengdu efni. Þá verði tekið mið af beinum verktakagreiðslum til sambærilegra aðila, útgáfutíðni miðilsins og fjölbreytileika. Upplýsingarnar skulu staðfestar af endurskoðanda.
Í reglugerð ráðherra frá 3. júlí 2020 var fjölmiðlanefnd falin umsýsla málsins. Nefndin auglýsti eftir umsóknum 10. júlí sl. og umsóknarfrestur rann út 7. ágúst. Alls bárust 26 umsóknir um sérstakan rekstrarstuðning, þar af 25 frá fjölmiðlaveitum og ein frá félagi sem ekki telst fjölmiðlaveita í skilningi laga um fjölmiðla. Alls uppfylltu 23 umsóknir frá fjölmiðlaveitum skilyrði reglugerðar.