Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur staðfest synjun mennta- og menningarmálaráðuneytisins á beiðni Kjarnans um aðgang að þeim lögfræðiálitum sem Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmála, aflaði í aðdraganda þess að hún ákvað að höfða mál á hendur Hafdísi Helgu Ólafsdóttur, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu.
Kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði fyrr á þessu ári að Lilja hefði brotið jafnréttislög með því að sniðganga Hafdísi Helgu í embætti ráðuneytisstjóra í ráðuneytinu.
Þegar greint var frá á RÚV þann 24. júní síðastliðinn að Lilja ætlaði að stefna Hafdísi Helgu, með það fyrir augum að fá úrskurð kærunefndarinnar ógildan, kom fram að sú ákvörðun hefði verið tekin eftir að ráðherrann hefði aflað sér lögfræðiálita sem bent hefðu á lagalega annmarka í úrskurði kærunefndarinnar. Úrskurðurinn byði upp á lagalega óvissu í tengslum við það ferli sem unnið sé eftir við skipan embættismanna. Þeirri lagaóvissu vildi Lilja eyða. Stefna Lilju gegn Hafdísi Helgu var þingfest í dag í héraðsdómi Reykjavíkur.
Kjarninn óskaði eftir því í byrjun að fá umrædd lögfræðiálit sem stefnan byggir á afhent, en var synjað.
Undanþegin upplýsingarétti almennings
Ráðuneytið vísaði í þriðja tölulið sjöttu greinar upplýsingalaga þegar það synjaði Kjarnanum um aðgang að lögfræðiálitunum þar sem segir að bréfaskipti við sérfróða aðila í tengslum við réttarágreining eða til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað séu undanþegin upplýsingalögum.
Í niðurstöðu nefndarinnar segtir að hún hafi kynnt sér gögn málsins en um sé að ræða tvær lögfræðilegar álitsgerðir, dagsettar 3. og 8.júní 2020. „. Í lögfræðiálitunum er fjallað um meinta annmarka á úrskurði kærunefndarinnar en fyrir liggur að höfðað hefur verið dómsmál til ógildingar úrskurðarins. Úrskurðarnefndin telur samkvæmt framangreindu að ekki leiki vafi á því að heimilt sé að undanþiggja umbeðin gögn upplýsingarétti almennings á grundvelli[...]upplýsingalaga Verður þá að leggja áherslu á að ekki verður annað ráðið af efni þessara lögfræðiálita en að þeirra hafi verið gagngert aflað við athugun á hugsanlegri málshöfðun til ógildingar á úrskurði kærunefndar jafnréttismála.“
Þar segir enn fremur að þótt almenningur kunni að hafa hagsmuni af því að geta kynnt sér slík gögn, og kærandi í málinu gegni því hlutverki sem starfsmaður fjölmiðils að miðla upplýsingum um opinber málefni, hafi löggjafinn við setningu upplýsingalaga „tekið skýra afstöðu til þess að slík gögn skuli vera undanþegin upplýsingarétti almennings.“
Braut jafnréttislög
Greint var frá því í byrjun júní að Lilja hefði brotið jafnréttislög við skipun Páls Magnússonar í embætti ráðuneytisstjóra í fyrra, samkvæmt úrskurði kærunefndar jafnréttismála. Hafdís Helga hefði verið vanmetin í samanburði við Pál. Hæfisnefnd mat ekki Hafdísi Helgu í hópi þeirra fjögurra sem hæfastir voru taldir í starfið.
Páll, sem var skipaður í embættið síðla árs í fyrra, hefur um árabil gegn trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn en hann var varaþingmaður Framsóknarflokksins í tvö kjörtímabil í kringum árið 2000 og aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur ráðherra Framsóknarflokksins.
Í áðurnefndri frétt RÚV, frá 24. júní, var rakið að í lögum um kærunefnd jafnréttismála segi að úrskurðir hennar séu bindandi gagnvart málsaðilum, en þeim sé heimilt að bera úrskurði hennar undir dómstóla. Til þess þurfi ráðherrann, Lilja, að höfða mál á hendur kærandanum, Hafdísi Helgu.
Lögmaður Hafdísar Helgu, Áslaug Árnadóttir, sagði við RÚV að þessi ákvörðun ráðherrans hefði komið á óvart. „ Ég veit ekki til þess að þetta hafi verið gert áður, að ráðherra hafi höfðað mál persónulega gegn aðila sem kærir ákvörðun ráðherra til kærunefndarinnar.“