Stefán Óli Jónsson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður þingflokks Pírata. Hann var valinn úr hópi rúmlega 200 umsækjenda, hóf störf 1. september og mun aðstoða þingflokkinn fram að Alþingiskosningum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum í dag.
Stefán mun meðal annars annast samskipti við fjölmiðla og aðstoða þingmenn flokksins í störfum sínum. Fyrir eru starfsmenn þingflokksins þeir Eiríkur Rafn Rafnsson og Baldur Karl Magnússon.
„Stefán kemur til Pírata frá fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar þar sem hann hóf störf í upphafi árs 2014. Á árum sínum hjá fréttastofunni miðlaði Stefán fréttum þvert á miðla; í sjónvarpi, útvarpi og á vef, auk þess að hafa komið að framleiðslu annars fréttatengds efnis.
Að loknu stúdentsprófi úr Verzlunarskóla Íslands lauk Stefán BA-gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í nýsköpun og viðskiptaþróun frá sama skóla,“ segir í tilkynningunni.