Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segist hafa verulegar áhyggjur af því að ríkisstjórnin skynji ekki þann mikla vanda sem blasi við íslensku samfélagi vegna atvinnuleysis. Hún telur þingmenn Vinstri grænna koma upp í pontu Alþingis til að reyna að réttlæta sína eigin vanlíðan í stjórnarsamstarfinu. „Ég skil það reyndar mjög vel, en þetta er svolítið kúnstugt að eftir þrjú ár er vanlíðanin enn svona merkilega mikil þrátt fyrir að í rauninni að þetta sé sambræðingur íhaldsflokka.“
Þetta kom fram í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag.
Þorgerður Katrín sagði að þingmenn Vinstri grænna ættu þó að hafa meiri áhyggjur af því sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, hefði sagt í „ríkisstyrktu blaði“, Morgunblaðinu, í morgun. Ástæðan þess að hún kallaði Morgunblaðið ríkisstyrkt er sú að miðillinn fékk fjórðung allra styrkja sem veittir voru til einkarekinna fjölmiðla í gær, alls 100 milljónir króna.
Í viðtalinu ræddi Bjarni meðal annars lagningu Sundabrautar og sagði að lagning hennar væri eitt meginatriðið í aðkomu ríkisins að samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, sem felur einnig í sér fjármögnun Borgarlínu. „Ef það strandar á einstökum verkefnum í sáttmálanum, nú þá er hann strand.“
Of lítil skref og of hægur taktur
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, flokksystir Þorgerðar Katrínar, sagði við sama tilefni að ástæða væri til að ætla að yfirstandandi kreppa yrði frekar stutt.
Stjórnvöld ættu því að bregðast ákveðið og hratt við yfirstandandi ástandi. Sú samstaða sem hefði skapast í vor í kringum helstu aðgerðir væri að hverfa og ríkisstjórnin beri ábyrgð á því. Hún hafi verið óskýr í svörum sínum og aðgerðum, til dæmis þegar hún hafi opnað landið í sumar án nægilegra greininga á afleiðingum þess, og svo lokað því aftur á sama illa byggða grunni. „Þess vegna hafa myndast andstæðar fylkingar í landinu, gjá á milli hópa og atvinnugreina þegar sameiginlegur óvinur er, og á að vera þessi bráðsmitandi veira.“
Hún sagði að ný fjármálastefna ríkisstjórnarinnar væri ekki skýr og spurði hvers vegna það væri verið að draga aðgerðir á langinn. Skrefin sem verið væri að taka væru of lítil og takturinn of hægur. „Allt sem er hvetjandi fyrir störf núna er af hinu góða. Það er ekki bara það mannlega í stöðunni, heldur ábyrgð efnahagslega.“
Þorbjörg kallaði eftir því að fólki yrði auðveldað að skapa sér tækifæri og tekjur, að álögur á vinnuveitendur yrðu lækkaðar og að hvatar yrðu skapaðir fyrir fyrirtæki til að ráða fólk. Það væri ábyrg efnahagsstjórn, þegar tímabundið ástand gangi yfir, að hafa kjark til að standa með fólki á meðan að á því stæði.