Viðreisn vill bregðast við efnahagssamdrættinum með efnahagsaðgerðum að andvirði 123 milljarða króna. Stærst þeirra aðgerða yrðu flýttar framkvæmdir hins opinbera, en stjórnmálaflokkurinn vill verja 80 milljörðum í hann. Borgarlína og aðrar samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu voru sérstaklega nefndar í því samhengi.
Þetta kom fram á fjölmiðlafundi Viðreisnar í morgun, þar sem tillögur flokksins í efnahagsmálum voru kynntar.
Tillögurnar voru sjö, en til viðbótar við flýttar opinberar aðgerðir boðaði flokkurinn lækkun tryggingargjalds, aukin útgjöld í loftslagsmálum, tímabundin úrræði fyrir fólk í atvinnuleit, aukið aðgengi að sálfræðiþjónustu, aðgerðir gegn félagslegum vanda og fjárfestingar í nýsköpun.
„Drífa af stað“ Borgarlínu
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði mikilvægt sé að ráðast strax í þær opinberu framkvæmdir sem eru tilbúnar og flýta þeim sem eru þegar hafnar. Í því samhengi nefndi hún sérstaklega Borgarlínuna auk annarra framkvæmda til að bæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, sem Þorgerður sagði að ætti að „drífa af stað.“
Þorgerður sagði einnig á fundinum að aðgerðir íslensku ríkisstjórnarinnar í núverandi kreppu væru mjög takmarkaðar ef miðað er við önnur lönd.
„Við erum að gera mun, mun minna heldur en til að mynda seðlabanki bandaríkjanna og bandaríkjastjórn er að gera. Við erum að gera miklu minna heldur en Evrópusambandið er að gera og Þýskaland, sem er mjög sterkt á því að ríkissjóður eigi ekki að vera rekinn með halla.“