Samfélagslegur aukakostnaður hvers komufarþega til landsins í sumar nam að minnsta kosti 80 þúsund krónum. Þetta er mat Tinnu Laufeyjar Ásgeirsdóttur, prófessors í hagfræði við Háskóla Íslands.
Háskólinn birti fyrr í dag myndband með Tinnu Laufeyju þar sem hún fer yfir eina leið til þess að framkvæma mat á hagkvæmni fyrirkomulags á landamærunum.
Í myndbandi sínu mælir hún tvo kostnaðarliði sem hljótast af komufarþegum til landsins sem ekki eru innifaldir í miðaverði þeirra: Annars vegar aukna smithættu, sem eykur líkur á sóttkví og einangrun, og hins vegar hertar sóttvarnaraðgerðir, sem fela í sér samkomu- og fjarlægðartakmörk.
Aukin áhætta og hertar aðgerðir
Kostnaðurinn af aukinni smithættu er mældur með því að meta virði þess að þurfa ekki að vera í sóttkví eða einangrun. Í því tilviki mælir hún hversu mikið framleiðslutap hlýst af slíkum aðgerðum, auk þess sem hún ber saman fjölda komufarþega í sumar við fjölda fólks sem var í sóttkví á sama tíma.
Samkvæmt henni er kostnaður hvers komufarþega vegna aukinnar smitáhættu metinn á að minnsta kosti tíu þúsund krónur, en bætir þó við að um líklegt vanmat sé að ræða þar sem aðferð hennar geri ráð fyrir að frítími fólks sé einskis virði.
Til viðbótar við aukna smitáhættu bætir Tinna Laufey við neikvæðu ytri áhrifin sem hljótast af almennum sóttvarnaraðgerðum innanlands og hversu mikið fólk sé tilbúið að greiða til þess að losna við þær. Í því tilfelli sé matið er aðeins vandasamara, en Tinna segir að kostnaðinn sé hægt að meta með ýmsum aðferðum.
Hún byggir matið sitt á spurningalistum þar sem spurt var hversu mikið fólk væri tilbúið að borga til þess að losna við þessar aðgerðir. Tinna viðurkennir að þessi aðferð er talin síðri en aðrar, en útskýrir þó að hún að gott sé að styðjast við hana þar sem aðferðin býður upp á varfærið mat á kostnaðinum.
Hvernig má meta kostnað og ávinning af ferðatakmörkunum?Tekist er á um það í samfélaginu að hvort og þá hvernig haga eigi ferðatakmörkunum á landamærum á þessum óvenjulegu tímum og þar vegast á ýmis sjónarmið. En hvernig er hægt að meta ávinning og kostnað af því að hafa ferðatakmarkanir á landamærum Íslands? Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor við Hagfræðideild Háskóla Íslands, fjallar um það í þessu nýja myndbandi.
Posted by Háskóli Íslands on Thursday, September 3, 2020
Hér fyrir ofan má sjá myndband Tinnu Laufeyjar
80 þúsund krónur á farþega
Ef einungis þessir tveir liðir eru notaðir segir Tinna Laufey að neikvæð ytri áhrif sem hljótast af hverjum komufarþega nemi að minnsta kosti 80 þúsund krónum. Þar sem þessi upphæð er langtum minni en sú sem ferðamenn greiddu við komuna hér til landsins í sumar segir Tinna að opnun landamæranna hafi falið í sér fórn fyrir landsmenn sem jafngildir verðinu á flugmiðanum til landsins og hluta gistingarinnar.
Virðistap ferðaþjónustunnar tekið með í reikninginn
Í myndbandinu áréttir Tinna að umrætt mat taki einnig tillit til vöru og þjónustu sem tengist ferðatakmörkunum með viðskiptalegum hætti, eins og t.d. útflutning, sem og virði þess að geta farið til útlanda. Virðistap ferðaþjónustunnar ætti því að heyra þar undir. Þar sem útreikningar hennar nái einungis til ytri áhrifa þurfi hins vegar ekki að vega þá upp á móti samfélagslega kostnaðinum sem koma ferðamannanna veldur.
Að lokum bætir Tinna Laufey við að útreikningar hennar snúast um að hámarka þjóðarhag og byggi ekki á siðferðislegum hugmyndum um frelsi. „Ef fólki finnst að frelsi trompi þjóðarhag hef ég lítið við það að segja,“ bætir hún við.