Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tókust á í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Þingmaðurinn spurði ráðherra meðal annars hvort skref ríkisstjórnarinnar í aðgerðum í efnahagsmálum væru ekki einfaldlega of lítil, taktur þeirra of hægur. Bjarni svaraði og sagðist ekki heyra Jón Steindór koma með „eitt einasta mál hér upp í ræðustól. Það er ekki frekar en að maður gat fundið eitt einasta mál í nýrri efnahagsstefnu Viðreisnar. Það er bara ekki eitt einasta mál tiltekið – það er bara tómt blað.“
Jón Steindór sagði að á þessu ári hefði Alþingi samþykkt breytingu á fjármálastefnu tvisvar sinnum. Breytingin sem samþykkt var í gær gæfi til kynna að ríkisstjórnin ætlaði að dreifa viðbrögðum sínum jafnt til næstu þriggja ára.
Spyr hvers vegna verið sé að draga aðgerðir á langinn
„Horfur í efnahagsmálum eru slæmar og flestir spáaðilar sammála um að við erum að horfa fram á erfiðan vetur þar sem atvinnuleysi muni aukast. Hagfræðingar eru sammála um að aðgerðir til að mæta samdrættinum verði að koma fram núna.
Að dreifa þeim fram á næstu ár dregur ekki bara úr áhrifum þeirra núna heldur eykur líkur á verðbólgu þegar atvinnulífið tekur við sér aftur,“ sagði Jón Steindór.
Fyrirtækin þyrftu hreinlega súrefni á að halda til að viðhalda ráðningasamböndum sínum við launþega. Fyrirtækin og sveitarfélögin þyrftu enn fremur möguleika á hvata til þess að ráða til sín fólk eða viðhalda virkni fólksins.
„Ný og endurbætt fjármálastefna ríkisstjórnarinnar er ekki skýr um planið. Allt sem er hvetjandi fyrir störf er af hinu góða. Það er ekki bara það mannlega í stöðunni heldur ábyrgt efnahagslega. Það þarf að auðvelda fólki að skapa sér tækifæri og tekjur, lækkar álögur á vinnuveitendur og skapa fyrirtækjum hvata til þess að ráða fólk.
Ef ríkisstjórnin er að veðja á að áfallið sé tímabundið eins og fjármálaráðherra segir sjálfur hvers vegna þá að draga aðgerðir á langinn? Hvers vegna ekki að bregðast hraðar við? Hvers vegna lagði ráðherra fram fjármálastefnu sem var ekki framþyngri en raun ber vitni?“ spurði hann.
„Eru skref ríkisstjórnarinnar ekki einfaldlega of lítil, taktur þeirra of hægur?“
Allt sem ríkisstjórnin hefur kynnt til sögunnar á þessu ári gengið mjög vel
Bjarni svaraði og benti á að einungis hefði verðir búið að endurskoða fjármálastefnuna einu sinni á þessu ári en tvisvar á kjörtímabilinu. „En í þessari stefnu erum við að draga upp breiðu línurnar. Við erum að fjalla um heildarafkomuna, við erum að fjalla um skuldaþróunina og við erum að segja að hvers vegna þörf sé á endurskoðun stefnunnar. Hvað hafi breyst í horfum hér innanlands varðandi hagvöxt, atvinnusköpun og svo framvegis. En við erum ekki að takast á við þær spurningar sem háttvirtur þingmaður ber hér fram og snúa að því hvernig við getum nákvæmlega örvað, hvaða lausnir við getum komið með að borðinu. Það höfum við verið að gera í öðrum þingmálum hér fyrr á árinu og munum næst taka sérstaklega fyrir í fjármálaáætluninni og í fjárlögunum.“
Hann sagði að það sem ríkisstjórnin hefur kynnt til sögunnar á þessu ári hefði gengið mjög vel. „Hlutabótaleiðin hefur verið hér á þessum þingdögum til umræðu og framlenging hennar og við sjáum að það er úrræði sem hefur gagnast mjög vel. En það er fjölmargt annað sem sjaldnar er rætt um sem hefur einnig skipt máli: Frestun á gjalddögum skilur eftir fjármuni hjá fyrirtækjunum sem þau geti betur einbeitt sér að því að fást við aðstæður. Breytingar á skattareglum – þannig að fyrirtæki sem áttu eða höfðu væntingar um að þurfa að greiða til ríkisins skatt á þessu ári vegna hagnaðar á árinu 2019 – leiða til þess að þeir peningar verða eftir inn í fyrirtækjunum og geta gagnast í rekstrinum.
Fjárfestingaátak ríkisstjórnarinnar er sömuleiðis að koma að gagni. Það kemur ofan á annað átak sem við höfum sérstaklega lagt upp með í samgöngumálum og kemur inn á fjölbreytt svið mannlífsins á Íslandi, allt frá samgöngum yfir í grunnrannsóknir – ýmislegt sem snertir samkeppnissjóðina og margt fleira. Hér er í raun og veru spurt: Af hverju gerum við ekki meira hraðar?“
Bjarni spurði á móti: „Hvað er það sem háttvirtur þingmaður er að kalla eftir að gert verði sérstaklega? Sumir tala um að hið opinbera eigi að stórauka enn fremur fjárfestingu sína, það gæti komið til álita að bæta eitthvað í, en ég held að við ættum að beina sjónum okkur að hinu raunverulega vandamáli sem er fall í fjárfestingu einkageirans.“
Ríkisstjórnin farin að undirbúa sig fyrir næstu kosningar?
Jón Steindór kom aftur í pontu og sagði: „Ósamhverf og óskýr stefna. Hætta er á lausung í stjórn opinberra fjármála með nýrri fjármálastefnu ef hagvöxtur verður meiri en búist var við. Þetta eru ekki mín orð heldur fjármálaráðs. Það sem við erum að tala um er einfaldlega það að það þarf að sjá til þess að það sé hægt að halda uppi umsvifum í samfélaginu þegar mest þarf á því að halda og það er á næstu örfáum mánuðum. Ef að veðmál ríkisstjórnarinnar og spáaðila er rétt um það að þetta verði stutt og snarpt. Það læðist hins vegar að manni sá grunur að það gæti verið að ríkisstjórnin sé klók og hún sé þegar farin að undirbúa sig fyrir næstu kosningar og ætli þá að eiga í vasanum mál til þess að fjármagna kosningaloforð sem verða sett fram á næsta vetri.“
Orð sem hafa ekkert innihald
Bjarni svaraði og sagði að honum fyndist Jón Steindór hræra saman í eina skál mjög ólíkum hlutum. „Annars vegar því hvernig við beitum lögum um opinber fjármál til þess að veita aðhald og auka aga við stjórn opinberra fjármála – sem er það sem að fjármálaráð var að tjá sig um og lesið var upp hér í ræðustól – og hins vegar því einstöku aðgerðir sem það eru. Við erum ekki beint að fjalla um þær í fjármálastefnunni, þessari endurgerðu. Eða hvaða einstöku aðgerðir það eru.“
Hann sagðist ekki heyra Jón Steindór koma með „eitt einasta mál hér upp í ræðustól. Það er ekki frekar en að maður gat fundið eitt einasta mál í nýrri efnahagsstefnu Viðreisnar. Það er bara ekki eitt einasta mál tiltekið – það er bara tómt blað. Það er bara fyrirsögnin að þetta sé efnahagsstefnan og að það þurfi að gera eitthvað en það bara er ekkert innihald. Það er ekkert innihald.“
Þingmenn létu í sér heyra í þingsal við þessi orð og má vænta að það hafi verið þingmenn Viðreisnar sem mótmæltu þessum orðum.
Bjarni hélt áfram: „Við köllum eftir því þegar menn koma og segja að það þurfi að fara einhverja aðra leið að menn lýsi þá upp um þá leið og leggi á borðið einhverjar raunverulegar tillögur. Einhverjar raunverulegar tillögur sem valkost en standi ekki hér og gagnrýni það sem er verið að gera með einhverjum almennum orðum sem hafa nákvæmlega ekkert innihald.“