Afgangur af þjónustujöfnuði Íslands við önnur lönd dróst saman um 93 prósent á öðrum ársfjórðungi þessa árs miðað við árið á undan. Hann nemur nú 3,7 milljörðum króna og hefur ekki verið minni síðan í ársbyrjun 2008. Þetta kemur fram í bráðabirgðartölum Hagstofu.
Breytingin er tilkomin vegna gríðarmikils samdráttar á útflutningi þjónustu á öðrum ársfjórðungi, en hann minnkaði um nær 100 milljarða króna miðað við sama tímabil í fyrra. Einnig var nokkur samdráttur á innflutningi þjónustu á sama tíma, en hann nam þó einungis 50 milljörðum króna.
Nær allan samdráttinn í þjónustuútflutningi má rekja til hruns í ferðaþjónustu og farþegaflutningum. Alls dróst framleiðslan í ferðaþjónustunni við útlönd um tæpa 75 milljarða króna, á meðan farþegaflutningar til landsins drógust saman að andvirði 30 milljarða króna. Sömuleiðis má að mestu leyti rekja samdráttinn í þjónustuinnflutningi til fækkunar íslenskra ferðamanna erlendis.
Mesta fækkunin frá Bandaríkjunum
Mest fækkaði ferðamönnum frá Bandaríkjunum, en þjónustuútflutningur þangað dróst saman um rúma 10 milljarða króna. Þar á eftir kemur Kanada, þar sem útflutningurinn dróst saman um 1,4 milljarða og svo Bretland, þar sem samdrátturinn nam 880 milljónum á öðrum ársfjórðungi.
Hlutfallslega fækkaði þó ferðamönnum mest frá Evrópulöndunum þar sem strangt útgöngubann var í gildi á þessum tíma, eða Spáni, Ítalíu og Frakkland, en samdrátturinn í þjónustuútflutningi til þeirra landa nam allt að 90 prósentum.
Líkt og myndin hér að ofan sýnir hefur þjónustujöfnuður Íslands við önnur lönd verið jákvæður allt frá árinu 2008, sem þýðir að við höfum flutt meiri þjónustu út úr landinu heldur en inn í það. Þar hefur uppgangur ferðaþjónustunnar vegið mest, líkt og sést í stórum árstíðasveiflum.
Á öðrum ársfjórðungi nam afgangurinn af þjónustujöfnuðinum svo 3,7 milljörðum, en það eru einungis þrjú prósent af hámarksafgangi landsins sem náðist á þriðja fjórðungi ársins 2018.