Síðasti dagurinn sem hægt verður að kaupa og selja hlutabréf í leigufélaginu Heimavöllum í Kauphöll Íslands verður næstkomandi föstudag, 11. september. Félagið var skráð á markað vorið 2018, nánar tiltekið 24. maí það ár, og náði því að vera skráð félag í rúmlega tvö ár.
Heimavellir fóru fram á það 25. ágúst síðastliðinn við Kauphöll Íslands að skráð hlutabréf í félaginu verði tekin úr viðskiptum.
Norska félagið Fredensborg AS gerði yfirtökutilboð í Heimavelli í mars 2020 og þegar því lauk átti félagið 99,45 prósent í Heimavöllum þegar búið var að leiðrétta fyrir eigin hlutum.
Verðið var 1,5 krónur á hlut og því hljóðaði yfirtökutilboðið í heild sinni upp á 17 milljarða króna. Alls tóku 242 hluthafar tilboðinu. Í kjölfarið var innlausnarrétti beitt þar sem verðið var hið sama og bauðst í yfirtökutilboðinu, eða 1,5 krónur.
Reyndu að afskrá félagið í fyrra
Lykilhluthafar Heimavalla reyndu að afskrá félagið í fyrra eftir að illa gekk að fá stóra fagfjárfesta á borð við lífeyrissjóði til að fjárfesta í því og eftir að félaginu mistókst að endurfjármagna sig í takti við fyrri áætlanir sem áttu að losa það undan arðgreiðsluhömlum.
Kauphöll Íslands hafnaði þeim tilraunum og þess í stað fóru helstu hluthafar Heimavalla í þá vegferð að selja eignir með það markmið að skila arðinum af þeim til hluthafa. Samhliða var haldið áfram, með umtalsverðum árangri, að leita að endurfjármögnun fyrir lánin sem meinuðu útgreiðslu á arði.
Markavirði Heimavalla er í dag er 16,4 milljarðar króna og hækkaði umtalsvert framan af ári.
Eigið fé félagsins, munurinn á skuldum og eignum þess, er hins vegar mun hærri tala eða rúmlega 20 milljarðar króna miðað við síðasta birta uppgjör.
Í október í fyrra hófu Heimavellir umfangsmikla áætlun um endurkaup á eigin bréfum.
Heimavellir töpuðu 476 milljónum króna á fyrri hluta ársins 2020. Eigið fé félagsins var 19,5 milljarðar króna í lok júnímánaðar.