Stærstu ferðaþjónustufyrirtæki landsins raða sér efst á lista sem Skatturinn hefur birt á vef sínum yfir svokallað uppsagnastyrki, ríkisstuðning til fyrirtækja vegna greiðslu launa starfsmanna á uppsagnarfresti, sem í heild hefur numið yfir 8 milljörðum króna til þessa. Skatturinn birtir lista yfir uppsafnaða fjárhæð sem rekstraðilar hafa fengið vegna uppsagnastyrkjanna í maí, júní og júlí.
Félög í eigu Icelandair hafa samanlagt fengið á fjórða milljarð króna í styrki vegna uppsagna á fjórða þúsund launamanna. Mest hefur að sjálfsögðu flugfélagið sjálft fengið, eða 2.874 milljónir króna vegna uppsagna 1889 launamanna. Icelandair Group gerði ráð fyrir því í hálfsársuppgjöri sínu að sækja allt að 3,3 milljarða í uppsagnarstyrki til ríkisins þegar allt yrði saman talið.
Stóru hótelkeðjurnar hafa sagt upp fjölda manns, en Íslandshótel og Fosshótel Reykjavík, sem eru tengd félög, hafa samanlagt fengið fengið yfir 582 milljóna stuðning vegna hluta launakostnaðar alls 591 starfsmanns á uppsagnarfresti. Þá hafa Centerhotels fengið tæpar 223 milljónir í stuðning vegna uppsagna 226 launamanna og Hótel Saga fengið 118 milljón króna stuðning vegna uppsagna 66 starfsmanna, svo eitthvað sé nefnt.
Bláa lónið hefur fengið 425 milljóna króna stuðning vegna uppsagna 540 starfsmanna. Stærstu rútufyrirtækin tvö, Gray Line og Kynnisferðir, hafa svo bæði fengið hátt á annað hundrað milljónir í stuðning. Þá hafa bílaleigur sagt upp fjölda fólks og ýmis fyrirtæki í afþreyingu fyrir ferðamenn einnig.
Listinn sem Skatturinn birtir er tæmandi og eru alls 272 fyrirtæki sem hafa fengið greidda uppsagnarstyrki. Vegna persónuverndarsjónarmiða er fjöldi launamanna á uppsagnarfresti einungis gerður opinber þegar þeir eru 20 eða fleiri hjá sama fyrirtækinu.
Búið að greiða út 8 milljarða en áætlun gerði ráð fyrir 27 milljarða útgjöldum
Heildarupphæðin sem greidd hefur verið út vegna uppsagnarstyrkjanna er um átta milljarðar króna, en þegar frumvarp um uppsagnarstyrki var lagt fram um miðjan maí var gert ráð fyrir því að bein útgjöld ríkissjóðs vegna úrræðisins yrðu 27 milljarðar króna. Enn sem komið hefur því um 30 prósent af áætluðum kostnaði vegna uppsagnarstyrkja fallið til.
Yfirlýst markmið uppsagnarstyrkjanna var að draga úr fjöldagjaldþrotum og tryggja réttindi launafólks. Hliðaráhrifin eru svo þau að eign hluthafa fyrirtækja er varin.
Í minnisblaði Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, sem inniheldur yfirlit yfir stöðu stærstu efnahagsaðgerða stjórnvalda vegna COVID-19, og var lagt fyrir ríkisstjórn 14. ágúst, sagði að umsóknir hefðu verið færri en gert hefði verið ráð fyrir á tímabilinu. Síðasti umsóknardagur fyrir umsóknir um uppsagnastyrki vegna greiddra launa í maí til júlí var 20. ágúst.
Síðasti uppsagnardagurinn sem fellur undir stuðning vegna launagreiðslna á uppsagnarfresti er 1. október og mun úrræðið því teygja sig út árið.
Fréttin hefur verið uppfærð.