Hver íbúi á Íslandi notar líklega um 110-120 kíló af plasti á ári

Talið er að aðeins 5 prósent af öðru plasti en plastumbúðum skili sér endurvinnslu hér á landi. Í áætlun sem umhverfisráðherra hefur kynnt er að finna átján aðgerðir sem ætlað er að hafa áhrif á hegðun fólks í þeim tilgangi að draga úr notkun plasts.

Plast brotnar í óteljandi búta í hafinu og skolar svo upp í fjörur. Þessir plastbútar tilheyra ógrynni af plastrusli sem tínt var í fjörum í Árneshreppi á Ströndum í sumar.
Plast brotnar í óteljandi búta í hafinu og skolar svo upp í fjörur. Þessir plastbútar tilheyra ógrynni af plastrusli sem tínt var í fjörum í Árneshreppi á Ströndum í sumar.
Auglýsing

Á hverju ári eru notuð um 47 kíló af plastumbúðum að meðaltali á hvern íbúa Íslands, eða alls um 16.500 tonn á ári. Þessar tölur ná yfir almennar umbúðir sem notaðar eru á heimilum, stofnunum og hjá fyrirtækjum, svo sem umbúðir utan um matvæli og annan varning, og þær ná yfir drykkjarvöruumbúðir úr plasti og plast til að vefja utan um hey.


Á síðustu árum hafa að meðaltali 43 prósent af plastumbúðum sem notaðar eru hér á landi skilað sér til endurvinnslu. Upplýsingar um notkun annars plasts en umbúðaplasts liggja ekki fyrir. Um 40 prósent af framleiddu plasti í heiminum eru notuð í umbúðir og 60 prósent í annan varning. Ef tekið er mið af þessu hlutfalli og gert ráð fyrir að 40 prósent af plastnotkun hér á landi sé vegna umbúða má leiða að því líkum að heildarplastnotkun á Íslandi á hverju ári gæti verið á bilinu 110-120 kíló á hvern íbúa að meðaltali. Lítið skilar sér til endurvinnslu af öðru plasti en umbúðaplasti, eða líklega innan við 5 prósent.


Umhverfis- og auðlindaráðherra kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar í gær áætlunina Úr viðjum plastsins. Hún samanstendur af 18 aðgerðum sem miða að því að draga úr plastnotkun í samfélaginu, auka endurvinnslu plasts og sporna gegn plastmengun í hafi.


Meira en helmingur aðgerðanna er þegar kominn til framkvæmda, til að mynda bann við afhendingu burðarpoka án gjaldtöku. Í sumar samþykkti Alþingi frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra þar sem bann var lagt við markaðssetningu ýmissa einnota plastvara, svo sem bómullarpinna, hnífapara og blöðruprika.

Auglýsing


Unnið er að því að skylda flokkun á úrgangi og samræma flokkunarmerkingar á landinu öllu með frumvarpi sem lagt verður fram á alþingi í vetur. Þá á að auka endurvinnslu á plasti með hagrænum hvötum. Á næsta áratug mun ríkið aðstoða sveitarfélög á landinu fjárhagslega svo hægt sé að ráðast í frekari endurbætur á fráveitukerfum og hefta þannig losun örplasts í hafið, til að mynda með grænum ofanvatnslausnum. Auglýst verður eftir verkefnum á heimasíðu ráðuneytisins í haust.


 „Að ráðast gegn plastmengun er áskorun sem allar þjóðir heimsins standa frammi fyrir og hafa óæskileg áhrif plastmengunar á lífríki komið æ betur í ljós á síðustu árum og er mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að grípa til aðgerða til að draga úr óábyrgri og óþarfri notkun plasts hér á landi, auka endurvinnslu plasts og lágmarka magn þess plasts sem ratar út í umhverfið, ekki síst til sjávar,“ er haft eftir Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, í tilkynningu vegna aðgerðaáætlunarinnar.


Aðgerðirnar átján byggja á tillögum samráðsvettvangs um aðgerðaáætlun í plastmálefnum sem ráðherra skipaði árið 2018 og í sátu fulltrúar stjórnvalda, atvinnulífs, félagasamtaka og þingflokka.


Aðgerðunum er skipt í þrjá hluta eftir eðli þeirra.


Dregið úr notkun plasts


Aðgerð 1: Notkun burðarpoka úr plasti verður hætt.


Aðgerð 2: Dregið úr umhverfisáhrifum af tilteknum vörum úr plasti.


Aðgerð 3: Styrkir til rannsókna og þróunar á plastlausum lausnum.


Aðgerð 4: Vitundarvakning um ofnotkun einnota plastvara.


Aðgerð 5: Viðurkenning fyrir framúrskarandi plastlausar lausnir.


Aðgerð 6: Þátttaka í Grænum skrefum í ríkisrekstri gerð almenn.


Aðgerð 7: Neytendum auðveldað að fá afgreidd matvæli í eigin umbúðir.


Aðgerð 8: Ábyrg notkun plasts í atvinnulífinu.


Aukin endurvinnsla plasts


Aðgerð 9: Innleiðing skyldu til samræmdrar flokkunar úrgangs.


Aðgerð 10: Athugun á möguleikum til álagningar úrvinnslugjalds á fleiri plastvörur.


Aðgerð 11: Grænar lausnir fyrir atvinnulífið - miðlæg upplýsingagjöf.


Aðgerð 12: Græn nýsköpun.


Plast í hafi


Aðgerð 13: Samræmdar rannsóknir á plastmengun í hafi.


Aðgerð 14: Bætt skólphreinsun.


Aðgerð 15: Dregið úr losun örplasts með ofanvatni.


Aðgerð 16: Takmarkanir á markaðssetningu snyrtivara sem innihalda örplast.


 Aðgerð 17: Hreinsun íslenskra stranda.


Aðgerð 18: Meiri endurheimt tapaðra veiðarfæra.


Pólý.... hvað?


Plast er í raun samheiti yfir mörg efnasambönd. Þessi efnasambönd eiga það sameiginlegt að vera svokallaðar fjölliður og þau eru jafnan létt en sterkbyggð og brotna ekki niður í umhverfinu nema á mjög löngum tíma. Að líkindum tekur það fleiri hundruð ár fyrir plast að brotna að fullu niður, sem lífniðurbrjótanleg efnasambönd gera á fáeinum dögum eða vikum, segir í aðgerðaáætluninni.


Algengustu plastfjölliðurnar sem notaðar eru í vörur til almennra nota eru pólýetýlen (PE), pólýprópýlen (PP), pólývínylklóríð (PVC), pólýetýlentereþalat (PET), pólýkarbónat (PC), pólýmetýlmetakrýlat (PMMA), akrýlónítrílbútadíenstýren (ABS) og pólýstýren(PS).


Við sem kaupum vörur eigum því í erfiðleikum með að átta okkur á hverjar þeirra innihalda plast. Og plast leynist í fleiri vörum en þeim augljósu, t.d. í snyrtivörum margskonar.

Litskrúðug plaströr eiga eftir að missa litinn en þó haldast nokkuð heil í hafinu í áratugi eða lengur.

Um 40 prósent af framleiddu plasti í heiminum eru notuð í umbúðir, 20 prósent í byggingar, 10 prósent í ökutæki, 6 prósent í raftæki og 24 prósent í annað, s.s. fatnað, húsgögn, lækningatæki og vörur til notkunar í landbúnaði.


„Plast sem endar í umhverfinu veldur umhverfisvá,“ segir í aðgerðaáætluninni og á það ekki síst við um vistkerfi hafsins. Sjávardýr festast í plastúrgangi og hljóta af því sár eða deyja. Fuglar og önnur dýr taka plastúrgang fyrir fæðu og deyja úr vannæringu. Efnasamböndum sem geta verið skaðleg lífríki er gjarnan blandað í plast við framleiðslu, til að ná fram tilteknum eiginleikum, og í plasti eru jafnframt leifar af hvarfefnum sem notuð voru við framleiðsluna. Þessi efnasambönd geta losnað úr plastinu og berist þau í umhverfið geta þau haft skaðleg áhrif. Þau eru oft það sem kallað er þrávirk og þau safnast því fyrir í lífverum.

Skaðleg efni

Plast hefur enn fremur þann eiginleika að við það vilja loða ýmis efnasambönd og örverur sem það kemst í snertingu við á ferðalagi sínu á leið til sjávar. Sjálft plastið og óæskileg efnasambönd og örverur sem fylgja því geta því verið skaðleg lífverum sem innbyrða plastið og m.a. haft áhrif á innkirtlastarfsemi. Örplast sem lífverur innbyrða safnast jafnframt fyrir í þeim og færist upp fæðukeðjuna. Á síðustu árum hafa fjölmargar rannsóknir leitt í ljós að örplast er að finna í drykkjarvatni um allan heim. Hvort tveggja í drykkjarvatni af krana og í því sem tappað hefur verið á flöskur. „Þótt enn sem komið er hafi ekki komið fram augljósar vísbendingar um að örplast í drykkjarvatni hafi áhrif á heilsu fólks þá er samt sem áður knýjandi þörf á að grípa til aðgerða til að draga úr streymi plasts út í umhverfið og draga úr plastmengun,“ stendur í aðgerðaáætluninni.

Einnota plastvörur heyra brátt sögunni til.

Þótt plast henti í sumum tilfellum vel sem hráefni í ýmsar vörur þá er mikið af þeim vörum sem framleiddar eru úr plasti gerðar til að vera í notkun einungis stutta stund. Jafnvel einungis til notkunar einu sinni. Í aðgerðaáætluninni er bent á að það sé í engu samræmi við hversu sterkt og endingargott plast jafnan er. Í flestum tilfellum séu til margnota staðgönguvörur eða einnota vörur úr öðrum efniviði sem hafa minni umhverfisáhrif en einnota plastvörur. „Notkun á einnota plastvörum er því oft óþörf og tengist venjum sem hafa skapast á síðustu árum og áratugum, fremur en nauðsyn.“


Aðgerðunum átján sem settar eru fram í áætluninni sem nú hefur litið dagsins ljós, er ætlað að hafa áhrif á hegðun fólks í þeim tilgangi að draga úr notkun plasts meðal almennings, atvinnulífs og opinberra stofnana, m.a. með því að stuðla að frekari notkun fjölnota vara í stað einnota plastvara. Aðgerðirnar eiga jafnframt að stuðla að aukinni flokkun plastúrgangs og er ætlunin að nýta hagræna hvata til að auka endurvinnslu úrgangsins. Síðast en ekki síst er aðgerðunum ætlað að varpa ljósi á hversu mikil plastmengun er í hafinu við Ísland, stuðla að hreinsun stranda og að draga verulega úr losun plasts út í umhverfið, þ.m.t. í hafið.


Aðgerðaáætluninni er ætlað að vera áfangi í baráttunni gegn þeirri vá sem plast í umhverfinu er. „Um er að ræða umfangsmikið verkefni sem er rétt að hefjast og er mikilvægt að stjórnvöld leggi áherslu á það næstu áratugi,“ segir í skýrslunni.


Til að fylgja eftir framkvæmd áætlunarinnar mun umhverfis– og auðlindaráðherra skipa stýrihóp fulltrúa ríkis, sveitarfélaga, atvinnulífs og mögulega fleiri aðila. Hlutverk stýrihópsins verður m.a. að fylgja því eftir að framkvæmd aðgerða miði áfram og að vera vettvangur umræðu um aðgerðirnar, plastmálefni og mögulegar frekari aðgerðir gegn plastmengun sem fýsilegt væri að grípa til í nánustu framtíð. Stýrihópurinn getur þannig lagt til við ráðherra að áætlunin eða einstakar aðgerðir hennar verði endurskoðaðar.Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Skriður á rannsókn saksóknara og skattayfirvalda á meintum brotum Samherja
Bæði embætti héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóri hafa yfirheyrt stjórnendur Samherja. Embættin hafa fengið aðgang að miklu magni gagna, meðal annars frá fyrrverandi endurskoðanda Samherja og úr rannsókn Seðlabanka Íslands á starfsemi fyrirtækisins.
Kjarninn 23. júní 2021
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
„Eðlilegt að draga þá ályktun að verðið hafi hækkað vegna áhuga á útboðinu“
Forsætisráðherra segir að það bíði næstu ríkisstjórnar að ákveða hvort selja eigi fleiri hluti í Íslandsbanka. Salan hafi verið vel heppnuð aðgerð.
Kjarninn 23. júní 2021
Jenný Ruth Hrafnsdóttir
Ísland - Finnland: 16 - 30
Kjarninn 23. júní 2021
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Engin smit út frá bólusettum með virkt smit – „Hver er þá áhættan? Mikil eða lítil?“
Ellefu bólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á landamærunum. Engin smit hafa hins vegar greinst út frá þeim. Sóttvarnalæknir segir enn óvíst hvort smithætta fylgi bólusettum með smit en að hún sé „alveg örugglega“ minni en frá óbólusettum.
Kjarninn 23. júní 2021
Benedikt Jóhannesson hefur veifað bless við framkvæmdastjórn flokksins sem hann var aðalhvatamaðurinn að því að stofna.
Hefur sagt sig úr framkvæmdastjórn og segir framgöngu formanns mestu vonbrigðin
Fyrrverandi formaður Viðreisnar telur að atburðarás hafi verið hönnuð til að koma ákveðnum einstaklingum í efstu sætin á lista flokksins á höfuðborgarsvæðinu og halda öðrum, meðal annars honum, frá þeim sætum.
Kjarninn 23. júní 2021
Drífa Snædal, forseti ASÍ.
ASÍ hvetur forsætisráðherra til að beita sér fyrir alþjóðlegum fyrirtækjaskatti
Verkalýðshreyfingin kallar eftir því að lagður verði á 25 prósent skattur á hagnað alþjóðlegra stórfyrirtækja þar sem hann verður til.
Kjarninn 23. júní 2021
Viðskipti hófust með bréf Íslandsbanka í gær.
20 fjárfestar keyptu rúmlega helminginn af því sem selt var í Íslandsbanka
Búið er að birta lista yfir stærstu eigendur Íslandsbanka. Auk ríkisins eiga lífeyrissjóðir og erlendir fjárfestingarsjóðir stærstu eignarhlutina. Margir einstaklingar leystu út hagnað af viðskiptunum í gær.
Kjarninn 23. júní 2021
Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um hvort og þá hvenær farið verður að bólusetja börn við COVID-19 á Íslandi.
Ráðleggja óbólusettum – einnig börnum – frá ónauðsynlegum ferðalögum
Sóttvarnarlæknir segir þær ráðleggingar embættisins að óbólusettir ferðist ekki til útlanda gildi einnig fyrir börn. Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um almenna bólusetningu barna.
Kjarninn 23. júní 2021
Meira úr sama flokkiInnlent