Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynnti í dag úrræði sem mun gefa íbúum á landsbyggðinni sem búa fjarri höfuðborginni kost á lægri flugfargjöldum til borgarinnar frá og með deginum í dag.
Verkefnið kallast Loftbrú og veitir hún 40 prósent afslátt af heildarfargjaldi fyrir allar áætlunarleiðir innanlands til og frá höfuðborgarsvæðinu. Fullur afsláttur er veittur hvort sem valið er afsláttarfargjald eða fullt fargjald. Hver einstaklingur getur fengið lægri fargjöld fyrir allt að þrjár ferðir til og frá Reykjavík á ári, eða fyrir sex flugleggi. Út árið 2020 gilda afsláttarkjörin fyrir eina ferð til og frá Reykjavík.
Undir Loftbrú falla Vestfirðir, hluti af Norðurlandi vestra, Norðurland eystra, Austurland, Hornafjörður og Vestmannaeyjar. Svæðið er afmarkað með tilliti til póstnúmera. Alls ná afsláttarkjör Loftbrúar til rúmlega 60 þúsund íbúa á þessum svæðum.
Loftbrú ekki fyrir ferðir í atvinnuskyni eða hefðbundnar vinnuferðir
Fram kemur á vefsíðunni loftbru.is að afsláttarkjörin nýtist öllum þeim sem sækja miðlæga þjónustu og afþreyingu á höfuðborgarsvæðið og til að heimsækja ættingja og vini. Markmið verkefnisins sé að jafna aðstöðumun íbúa og efla byggðir landsins með því að gera innanlandsflug að hagkvæmari samgöngukosti. Loftbrú sé ætluð fólki sem fer í einkaerindum til höfuðborgarinnar en ekki fyrir ferðir í atvinnuskyni eða hefðbundnar vinnuferðir.
„Tveir hópar hafa sérstöðu og um þá gilda undantekningar frá reglunni um að eiga lögheimili á landsbyggðinni. Framhaldsskólanemar af landsbyggðinni sem stunda nám á höfuðborgarsvæðinu og hafa fært lögheimili sitt tímabundið þangað munu eiga rétt á Loftbrú.
Börn sem eru með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu en eiga foreldra eða forráðamenn sem hafa búsetu á landsbyggðinni munu einnig eiga rétt á Loftbrú. Unnið er að því að útfæra þjónustuna þannig að hægt verði að bóka lægri fargjöld fyrir þessa tvo hópa. Stefnt er að því að klára þá vinnu fyrir áramót,“ segir á vefsíðu verkefnisins.
Kostnaður ríkisins vegna verkefnisins 600 milljónir á ári
Verkefnið er hluti af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að efla innanlandsflug og byggja upp almenningssamgöngur um land allt. Verkefnið er hluti af samgönguáætlun 2020 til 2034 sem Alþingi samþykkti í júní síðastliðnum. Verkefnið hefur gjarnan verið nefnt skoska leiðin þar sem það á fyrirmynd í kerfi sem Skotar hafa byggt upp í samstarfi ríkis og flugfélaga, að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins.
Vegagerðin fer með umsjón og framkvæmd verkefnisins í samvinnu við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið en kostnaður við greiðsluþátttöku ríkisins við lækkun flugfargjalda í verkefninu er metinn allt að 600 milljónum króna á ársvísu og 200 milljónum króna á þessu ári. Gert er ráð fyrir þeim fjárframlögum í samgönguáætlun sem samþykkt var í júní síðastliðnum.