Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, og Hlédís Sveinsdóttir, ráðgjafi og verkefnastjóri, hafa verið skipuð í verkefnisstjórn um landbúnaðarstefnu fyrir Ísland af Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Bryndís Eiríksdóttir, sérfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, og Sigurgeir Þorgeirsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri, munu starfa með verkefnastjórninni.
Verkefnastjórnin á að vinna að mótun nýrrar landbúnaðarstefnu fyrir Ísland og byggja á grunni sviðsmyndagreiningar um framtíð landbúnaðarins til ársins 2040 sem KPMG vann fyrir Kristján Þór. Gert er ráð fyrir að tillaga að landbúnaðarstefnu fyrir Ísland muni liggja fyrir þann 31. mars 2021.
Í tilkynningu frá ráðuneyti hans segir að mótun landbúnaðarstefnu sé samvinnuverkefni stjórnvalda, bænda, neytenda og atvinnulífs. „Verkefnisstjórn mun efna til funda með bændum og öðrum hagaðilum í því skyni að virkja þá til þátttöku í stefnumótuninni. Fyrir milligöngu ráðuneytisins verður stofnað til samráðs við þingflokka. Samráð verður haft við fulltrúa Bændasamtaka Íslands, Samtaka atvinnulífsins, Neytendasamtakanna og Alþýðusambands Íslands og þeim gefinn kostur á að fylgjast með framvindu verksins á vinnslustigi.“