Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, segist blöskra framsetning Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í málum hælisleitenda – en Katrín birti stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni í gær þar sem hún sagði að Vinstri græn legðu áherslu á að taka á móti fleira fólki á flótta og væri það markmið sett fram í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Um þessi mál væri sjaldan fjallað nema þegar einstök mál eru rædd. Mikilvægt væri að skoða hver þróunin hefði verið á undanförnum árum þegar rætt væri um stefnu stjórnvalda í þessum efnum.
Þórhildur Sunna tjáði sig um málið á Facebook gær og gerði athugasemd við færslu Katrínar. Þar segir hún að eina framlag VG til flóttamannamála sé ítrekuð framlagning frumvarps sem ætlað sé að stórskaða réttindi flóttamanna og auðvelda brottflutning þeirra. Þrisvar sinnum hafi þingmann VG samþykkt stjórnarfrumvarp þessa efnis sem þau í stjórnarandstöðunni hefðu þurft að leggja mikla vinnu í að stoppa í hvert sinn.
„Þú segir mikilvægt að láta umræðuna ekki snúast um tölur á blaði en nefnir svo ekkert nema tölfræði til þess að verjast gagnrýni á það hvernig þig komuð fram við fjögur lifandi og mennsk börn og foreldra þeirra.
Þú veist jafn vel og ég Katrín að fjöldi kjósenda kaus þig og þinn flokk vegna þess að þau trúðu að þú hefðir samkennd með fólki og myndir ekki skýla þér á bak við tölfræði þegar á reyndi fyrir börn af holdi og blóði. Þessi póstur þinn sannar því miður enn og aftur hið gagnstæða,” skrifar Þórhildur Sunna.
Það eina sem hægt er að gera er að halda áfram – skref fyrir skref að stefna í rétta átt
Katrín sagði á Facebook-síðu sinni í gær að fjöldi fólks á flótta á heimsvísu hefði meira en tvöfaldast á tíu árum og því hefði fylgt mikið umrót hvarvetna þegar kemur að málefnum þeirra. „Frammi fyrir jafn risavöxnum áskorunum og loftslagsvánni og fjölgun fólks á flótta (sem ekki eru ótengd málefni) er auðvelt að fyllast vanmáttartilfinningu en það hjálpar okkur ekki neitt. Það eina sem hægt er að gera er að halda áfram, skref fyrir skref að stefna í rétta átt.“
Þá benti hún á að Ursula Von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hefði sagt frá því í fyrradag að ráðist yrði í breytingar á hæliskerfi sambandsins, meðal annars með því að afnema Dyflinnarreglugerðina og innleiða í stað hennar nýtt samevrópskt móttökukerfi fyrir flóttafólk. Ursula kallaði eftir því að Evrópa ynni saman að því að bregðast við flóttamannavandanum. Það er mikilvægt að taka eigi þetta kerfi til endurskoðunar og vonandi næst samstaða um breytingar sem munu bæta stöðu fólks á flótta og þar mun Ísland leggja sitt af mörkum,“ skrifaði Katrín.
Forsætisráðherrann birti graf með færslunni og sagði: „Af málum sem er lokið á þessu ári hjá þeim sem sótt hafa um vernd, viðbótarvernd eða mannúðarleyfi hafa rúm 60 prósent umsókna verið samþykkt. Það eru 368 einstaklingar, fjölskyldur og börn sem hafa hlotið vernd hér á þessu ári. Ef eingöngu er horft til þeirra mála sem hafa fengið efnismeðferð þá hafa 79 prósent umsókna verið samþykkt. Umsóknum hefur fjölgað mjög á undanförnum árum en 2019 var fékkst niðurstaða í 1123 málum. Í fyrra fengu 376 einstaklingar vernd, viðbótarvernd eða mannúðarleyfi sem var 33 prósent afgreiddra umsókna samanborið við 10 prósent árið 2017.
Þar með er þó ekki öll sagan sögð en þessi tölfræði á einungis við um mál sem lokið er hjá Útlendingastofnun. Mál sem fara á borð kærunefndar útlendingamála eru því ekki hér meðtalin, en með þeim hækkar fjöldi þeirra sem hlotið hafa vernd töluvert. Til að mynda hlaut 531 einstaklingur alþjóðlega vernd hér á landi í fyrra þegar horft er bæði á mál hjá Útlendingastofnun og kærunefndinni,“ segir í færslu forsætisráðherrans að lokum.
Verður að gæta þess að láta umræðuna ekki snúast um tölur á blaði
Katrín sagði enn fremur að þessi mál snerust auðvitað um fólk og því yrði að gæta þess að láta umræðuna ekki snúast um tölur á blaði. „Þessar tölur geta þó sagt okkur hvort við séu á réttri leið, hvort að þau skref sem við höfum tekið séu að skila árangri fyrir fólk. Hvort við séum að taka á móti fleira fólki á flótta eins og við einsettum okkur þegar stjórnarsáttmálinn var settur saman á árinu 2017.
Töluverðar breytingar hafa orðið á bæði regluverkinu og framkvæmd þess hér á Íslandi síðastliðin ár, meðal annars með nýjum þverpólitískum útlendingalögum sem samþykkt voru 2016. Þó að framkvæmdin hafi batnað er eigi að síður nauðsynlegt að hún sæti sífelldri endurskoðun. Umræða síðustu daga sýnir að ríkur vilji er í samfélaginu til að gera betur í þessum málum og það er verkefnið fram undan,“ skrifaði hún.
Fjöldi fólks á flótta á heimsvísu hefur meira en tvöfaldast á tíu árum og því hefur fylgt mikið umrót hvarvetna þegar...
Posted by Katrín Jakobsdóttir on Thursday, September 17, 2020
Hefur ekkert með stefnu VG að gera
Þórunn Ólafsdóttir, stofnandi samtakanna Akkeri, gerir athugasemd undir færslu Katrínar og segir það eiginlega ekkert annað en ósmekklegt að VG ætli að hreykja sér af því að hér hafi fleiri fengið vernd undanfarin misseri. Það hafi allt með breytta samsetningu umsækjenda og ekkert með stefnu VG að gera.
„Stjórnvöld eru skuldbundin til að taka til meðferðar umsóknir um alþjóðlega vernd og það að hreykja sér af því að gera einmitt það er svolítið eins og að klappa sér sérstaklega á bakið fyrir að reka skólakerfi eða annað sem við teljum álíka sjálfsagt,“ skrifar hún.
Á meðan séu fjögur börn og foreldrar þeirra logandi hrædd í felum fyrir stjórnvöldum og „fjöldi barna sem enginn veit að eru til hafa líka verið flutt úr landi í skjóli nætur á ykkar vakt“.
Þórunn segir að Katrín hafi valið þá leið að afvegaleiða umræðu um nafngreind börn með því að henda fram tölum – það séu harðneskjustjórnmál. „Ég bjóst við meiru af þér Katrín og það er virkilega sárt að horfa upp á þessa atburðarás.“
Von um mannúðlegri útlendingastefnu má síns lítils
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður utan flokkar og fyrrverandi þingmaður VG, hefur einnig gagnrýnt fyrrnefnt frumvarp. „Síðustu daga hefur bergmálað um allt stjórnarheimilið að mannúðlegasta kerfið fyrir hælisleitendur sé að vera bara nógu fljót að synja þeim. Stjórnarflokkarnir eru í því allir orðnir samdauna Sjálfstæðisflokknum,“ skrifaði þingmaðurinn á Facebook í gær.
Hann bendir á að þrír dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafi ítrekað lagt fram „sama hræðilega frumvarpið sem snýst um að draga verulega úr vernd hælisleitenda, allt í nafni skilvirkni kerfisins. Sjálfstæðisflokkurinn er nefnilega með skýra sýn á málaflokkinn þótt flokkarnir hafi gefist upp á að ná sameiginlegri sýn í stjórnarsáttmála.“
Von um mannúðlegri útlendingastefnu megi síns lítils meðan þessi staða ríkir.