Stoðdeild ríkislögreglustjóra hefur sent út tilkynningu þar sem hún óskar eftir upplýsingum um ferðir og dvalarstað Ibrahim Mahrous Ibrahim Khedr og Doaa Mohamed Mohamed Eldeib og barna þeirra fjögurra.
Flytja átti fjölskylduna úr landi síðastliðinn miðvikudag eftir að Útlendingastofnun hafði úrskurðað að þau ættu að sæta frávísun. Hún fór hins vegar í felur áður en að af því varð og yfirvöld hafa ekki fundið hana síðan.
Ríkislögreglustjóri óskar eftir því að allir þeir sem geti gefið upplýsingar um „ferðir fjölskyldunnar eða vita hvar hún er niðurkomin“.
Þessir atburðir urðu meðal annars til þess að Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði sig úr flokknum. Í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér stóð meðal annars: „Nýlegir atburðir er varða brottvísun stjórnvalda á barnafjölskyldu sem hefur beðið eftir lausn sinna mála í 25 mánuði og viðbrögð ríkisstjórnar sem VG er í forystu fyrir í því máli, urðu til þess að ég finn endanlega að ég á ekki lengur samleið með þingflokki VG.“
Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður fjölskyldunnar, lagði í dag fram stefnu og beiðni um flýtimeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir hönd hennar. Þar er meðal annars byggt á því að við málsmeðferð stjórnvalda hafi þeim láðst að framkvæma sjálfstætt og heildstætt mat á hagsmunum barnanna.