Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist nú 25,6 prósent, samkvæmt nýrri könnun MMR. Það er rúmlega einu og hálfu prósentustigi hærra en við síðustu könnun MMR sem framkvæmd var í ágúst.
Fylgi Pírata jókst um tæpt prósentustig og mældist nú 15 prósent en fylgi Samfylkingarinnar minnkaði um tvö prósentustig og mældist nú 12,8 próesnt. Þá jókst fylgi Miðflokksins um tæplega þrjú prósentustig frá síðustu mælingu og mældist nú 10,8 prósent.
Stuðningur við ríkisstjórnina mældist nú 51 prósent og jókst um tæpt prósentustig frá síðustu könnun, þar sem stuðningur mældist 50,1 prósent.
Fylgi Viðreisnar mældist nú 9,4 prósent og mældist 10 prósent í síðustu könnun og fylgi Vinstri grænna mældist nú 8,5 prósent, samanborið við 9,6 prósent í síðustu könnun. Fylgi Framsóknarflokksins mældist 8,3 prósent og mældist 8,9 prósent í síðustu könnun. Fylgi Sósíalistaflokks Íslands jókst og mældist nú 4,3 prósent en það mældist 3,4 prósent í síðustu könnun. Fylgi Flokks fólksins mældist nú 3,6 prósent og mældist 4,8 prósent í síðustu könnun. Stuðningur við aðra mældist 1,7 prósent samanlagt.
Í úrtakinu voru einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR. 2.043 einstaklingar svöruðu könnuninni en hún var framkvæmd 10. til 23. september 2020.