Eigið fé landsmanna í fasteignum, eign þegar skuldir hafa verið dregnar frá, var 4.034 milljarðar króna í lok árs í fyrra. Það hefur tvöfaldast frá byrjun árs 2015, eða á fimm árum. Alls er 78 prósent af öllu eigin fé heimila landsins bundið í fasteignum.
Virði fasteigna í eigu landsmanna hefur sömuleiðis vaxið gríðarlega hratt á síðustu árum. Í lok árs 2010 var heildarvirði þeirra samkvæmt fasteignamati 2.353 milljarðar króna. Um síðustu áramót var sú upphæð komin upp í 5.648 milljarða króna og hafði heildarvirðið því aukist um 140 prósent. Virðið miðar við fasteignamat, ekki markaðsvirði.
Þetta má lesa úr tölu sem Hagstofa Íslands birti í gær um eignir og skuldir Íslendinga.
Heildarumfang íbúðalána sem Íslendingar höfðu tekið um síðustu áramót var 1.614 milljarðar króna. Umfang lánanna jókst um 141 milljarð króna á síðasta ári.
Frá lokum árs 2016 hefur umfang íbúðalána aukist um 352 milljarða króna, eða 28 prósent. Áður hafði lántaka þjóðarinnar til að kaupa sér húsnæði einungis vaxið um 56 milljarða króna frá byrjun árs 2011 og til loka árs 2016, eða um 4,6 prósent.
Skuldsetning skilur sig frá landsframleiðslu
Þessi þróun, aukin skuldsetning og hærra fasteignaverð, hefur haldið áfram á þessu ári þrátt fyrir þau efnahagsáföll sem drifið hafa yfir. Þannig kom fram í Fjármálastöðugleikariti Seðlabanka Íslands sem birt var í vikunni að heildarskuldir heimila hafi numið tæplega 79 prósent af landsframleiðslu í lok júní og að hlutfallið hafi hækkað um rúm tvö prósentustig á milli ára. Áður hafði aukin skuldsetning verið í takti við hagvöxt frá árinu 2016, en í ár hefur skilið á milli.
Í ritinu segir að skuldavöxtur heimilanna sé drifinn áfram af aukningu í íbúðalánum. „Þrátt fyrir óvissu virðist lítið lát vera á eftirspurn heimila eftir íbúðalánum sem skýrist meðal annars af lækkandi fjármagnskostnaði og því að kaupmáttur hefur haldist stöðugur þrátt fyrir efnahagssamdráttinn. Hrein ný útlán til heimila í júlí námu tæplega 32 ma.kr. sem er um 80 prósent hærri fjárhæð en meðaltal síðustu 12 mánaða.“
Þrátt fyrir skuldaaukningu síðasta árs er eignastaða heimila betri en áður. Eigið fé heimila, sem eru eignir þess umfram skuldir, jókst töluvert í fyrra og er það nú rúmlega tvöfalt meira en árleg landsframleiðsla. Til samanburðar var það jafnt landsframleiðslunni fyrir tíu árum síðan, og hefur það því tvöfaldast sem hlutfall af henni.