Fjármálastörfum fækkaði um rúmlega þriðjung á öðrum fjórðungi þessa árs miðað við sama tímabil árið á undan. Seðlabankinn nefnir að bankakerfið búi við þrengri rekstrarskilyrði þessa mánuðina, en segir að niðurskurður á síðustu misserum hafi leitt til hagkvæmari reksturs. Á sama tíma og starfsmönnum í fjármálakerfinu hefur fækkað jafnt og þétt síðustu ára hefur stjórnarmönnum, framkvæmdastjórum og stjórnarformönnum fjölgað þar um fimmtung.
Vaxtamunur hefur minnkað
Í ritinu Fjármálastöðugleika, sem gefið var út af Seðlabankanum á miðvikudaginn, kemur fram að nýlegar vaxtalækkanir og afskriftir í kjölfar farsóttarinnar hafi skapað þrengri rekstrarskilyrði fyrir Landsbankann, Íslandsbanka og Arion banka.
Minnkandi vaxtamun má sjá á mynd hér til hliðar, þar sem munur á vöxtum óverðtryggðra inn-og útlána til fyrirtækja og einstaklinga síðustu fimm ára er skoðaður. Líkt og myndin sýnir hefur þessi vaxtamunur hjá einstaklingum haldist nokkuð stöðugur í fimm prósentum síðustu árin, en hefur svo lækkað um fimmtung í ár. Samkvæmt Fjármálastöðugleika Seðlabankans hefur svo vaxtamunur heildareigna bankans einnig lækkað, úr 2,7 prósentum á öðrum fjórðungi síðasta árs niður í 2,6 prósent á sama tímabili í ár.
Mikil virðisrýrnun
Á sama tíma og vaxtamunur hefur minnkað hefur svo greiðslugeta fyrirtækja og einstaklinga minnkað sökum ástandsins. Um miðjan september voru 3,4 prósent útlána til heimila og 8,6 prósent útlána til fyrirtækja í greiðsluhléi eða frystingu hjá bönkunum þremur. Þar sem greiðsluhæfi lántakenda hefur skerst hefur virði útlána bankanna skerst um rúma 23 milljarða króna á fyrri hluta þessa árs. Þetta er þrefalt meiri virðisrýrnun en á sama tímabili í fyrra.
Meiri arðsemi eftir mikla hagræðingu
Þrátt fyrir verri rekstrarskilyrði bankanna þriggja var arðsemi þeirra meiri á fyrri hluta ársins en hún hefur verið á sama tímabili síðustu tvö árin. Í því samhengi nefnir Seðlabankinn að bankarnir hafi náð að lækka kostnað sinn töluvert á síðustu mánuðum, en hann var rúmlega fimm prósentum minni á síðasta ársfjórðungi, ef miðað er við sama tímabil í fyrra og tekið er tillit til verðbólgu.
Fækkun starfsmanna vó þungt í þeirri kostnaðarlækkun, en samkvæmt ritinu hefur stöðugildum í bönkunum þremur fækkað um tæp 200 á síðustu mánuðum og eru nú um 2.645.
1.500 störf horfin á tólf mánuðum
Svipuð þróun virðist hafa átt sér stað hjá öðrum fyrirtækjum í fjármálakerfinu, ef tölur Hagstofu um fjölda starfa eru skoðaðar. Samkvæmt þeim störfuðu um 2.900 manns í fjármála-og vátryggingarstarfsemi á síðasta ársfjórðungi, sem er rúm þriðjungslækkun miðað við sama tímabil í fyrra, þegar um 4.400 manns störfuðu þar. Störfum í greininni hefur því fækkað um 1.500 á tólf mánuðum.
Framkvæmdastjórum og stjórnarmönnum fjölgar
Ef litið er lengur aftur í tímann sést einnig að fjöldi launþega hefur hægt og rólega minnkað í fjármálakerfinu á síðustu tíu árum, en um 7.300 manns störfuðu þar í ársbyrjun 2010. Á sama tíma hefur þó fjöldi framkvæmdastjóra og stjórnarmanna aukist töluvert, eða úr 950 í 1.200. Þar vegur fjölgun stjórnarformanna þyngst, en þeim hefur fjölgað um 130 á síðustu tíu árum.